Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Fjármálaráðuneytið gagnrýnir Lilju: „Endurgreiðslur fara hækkandi í samkeppnislöndum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar eru gagnrýndar í bréfi til atvinnuveganefndar af fjármálaráðuneytinu. Í bréfinu segir að frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningarráðherra sé ófjármagnað og samráð hafi skort við samningu þess.

Lilja sagði í framsöguræðu sinni á Alþingi þar sem hún fjallaði um breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi að: „Mikill áhugi sé á þessum áformum ríkisstjórnarinnar, bæði hér heima fyrir og ekki síður erlendis. Þannig bíða nokkur stór og áhugaverð erlend verkefni, sem reiðubúin eru að hefja tökur á þessu ári, eftir formlegri ákvarðanatöku stjórnvalda og umræddri lagabreytingu.“ Ráðherra sagði mikið til þess unnið að afgreiða frumvarpið sem lög frá Alþingi fyrir þinglok á vorþingi.

Lilja kynnti frumvarpið um miðjan maí. Frumvarpið felur í sér að hlutfallið af kostnaði við kvikmyndagerð hérlendis sem ríkið endurgreiðir hækkar úr 25 prósentum í 35 og að verkefnin séu stór í sniðum. Þar er gerð krafa um að framleiðslukostnaður hér sé yfir 200 milljónir, tökudagar hér að minnsta kosti 30 og starfsfólkið að minnsta kosti 50.

Tillaga um að efla alþjóðlega samkeppnishæfi

Tillögurnar eru í samræmi við þær áherslur sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að efla alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis.

Jafnframt er frumvarpið í samræmi við áherslur og aðgerðir í kvikmyndastefnu fyrir Ísland til ársins 2030, sem gefin var út í október 2020.

Í frétt RÚV segir að Starfshópur hafi verið skipaður til að vinna frumvarpið, en vegna þess að því hafi verið flýtt hafi það alfarið verið unnið í menningar- og viðskiptaráðuneytinu, en ekki í því samstarfi sem til hafi staðið.

- Auglýsing -

Atvinnuveganefnd Alþingis tekur málið fyrir á morgun og fær á fund til sín gesti frá Viðskiptaráði og fjármálaráðuneytinu. Í aðdraganda fundarins sendi ráðuneytið nefndinni bréf þar sem bent er á „nokkra vankanta á frumvarpinu.“

Veikleikar í núverandi kerfi

„Þeim löndum fer sífellt fjölgandi sem bjóða upp á sérstakar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og hefur hlutfall endurgreiðslu farið hækkandi á undanförnum árum í helstu samkeppnislöndum Íslands. Þannig er það víða komið upp í 35%, t.d. á Írlandi og Möltu. Skotland, Bretland og Kanada hafa einnig verið nefnd sem lönd sem við eigum í harðri samkeppni við á þessu sviði,“ sagði ráðherra í framsögu sinni og sagði mikilvægt að hækka hlutfallið fyrir stærri verkefni til að tryggja að Ísland verði áfram samkeppnishæft sem tökustaður kvikmynda og sjónvarpsefnis. Það eflir innlenda menningu og landkynningu samhliða því sem það eflir og styrkir íslenska kvikmyndaiðnaðinn og aðrar skapandi greinar.

Í bréfi til atvinnuveganefndar kemur meðal annars fram að frumvarpið sé ófjármagnað, bæði á yfirstandandi ári og á tíma fjögurra ára fjármálaáætlunar og engar fjárheimildir til staðar til að mæta því.

- Auglýsing -

Þótt bent sé á það í frumvarpinu að í fjármálaáætlun hækki fjárheimildin um 300 milljónir varanlega þá sé það til að bregðast við veikleikum í núverandi kerfi, en dekki ekki fyrirhugaða hækkun á endurgreiðsluhlutfallinu.

Ráðuneytið bendir einnig á að það hafi aðeins fengið þrjá daga til að fara yfir frumvarpið, en yfirleitt sé gert ráð fyrir tveimur vikum í slíkt verk.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -