Tveir menn voru í Héraðsdómi Austurlands, dæmdir í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir alvarlega líkamsárás en þeir réðust að þriðja manninn með felgulykli og hamri.
Austurfrétt segir í frétt sinni að árásin hafi átt sér stað um miðjan júlí á síðasta ári. Árásarmennirnir höfðu fengið ungan mann til að aka þeim á bíl föður annars þeirra úr heimabyggð þeirra og yfir í nágrannabyggð.
Er þangað var komið réðust þeir að 15 ára gömlu pilti fyrir utan heimili hans en annar þeirra sló hann fjórum sinnum með hamri í höfuðið en hinn barði hann tvisvar með felgulyklinum. Skrámaðist pilturinn við árásina og glímdi um töluverðan tíma við höfuðverki eftir árásina.
Fram kemur í dóminum að mennirnir hafi verið margsaga um tildrög ferðarinnar og drengurinn verið nánast ókunnugur þeim. Hins vegar játuðu þeir á sig verknaðinn og viðurkenndu bótaskyldu en voru þó ósammála upphæðinni. Sýndu þeir iðrun fyrir dómi.
Annar árásarmannanna hafði ekki áður sætt refsingu en hinn hafði lokið sakamáli fyrir eignaspjöll, umferðalagabrot og þjófnað, með ákærufresti hjá lögreglu, rúmi ári fyrir árásina.
Fram kemur í dóminum að árásin hafi verið „alvarleg, hættuleg og tilefnislaus.“ Af þeim sökum voru mennirnir dæmdir í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára. Þurfa þeir að sæta sérstakri umsjón á skilorðstímanum. Piltinum voru dæmdar 600.000 krónur í miskabætur sem er talsvert minna en krafa hans var en hann krafðist 2,5 milljóna. Var árásarmönnunum aukreitis gert að greiða samanlagt um eina milljón í málskostnað.