Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölda mála í gær og fór meðal annars í tvær húsleitir vegna fíkniefna. Þá fór hún tvö útköll þar sem kvartað var undan hávaða og aðstoðaði vegna slysa og umferðaróhappa.
Fyrir kvöldmat var lögregla kölluð til vegna tveggja manna sem höfðu verið með ítrekað ónæði í póstnúmerinu 104 sökum ölvunar. Skömmu síðar barst tilkynning um menn í annarlegu ástandi við verslunarmiðstöð en þeir reyndust farnir á brott þegar lögreglu bar að garði. Lögreglan telur að um sömu menn hafi líklega verið að ræða.
Um kvöldmatarleytið var tilkynnt um þjófnað í verslun en við leit komu fíkniefni í ljós. Skömmu síðar var annar einstaklingur handtekinn vegna gruns um vörslu fíkniefna. Farið var í húsleit í kjölfarið þar sem meiri fíkniefni fundust.
Rétt fyrir klukkan 20 var tilkynnt um par með ógnandi hegðun en það var farið á brott þegar lögreglu bar að. Þá var óskað aðstoðar lögreglu vegna manna sem voru sagðir hafa sett brunaviðvörunarkerfi í gang með kannabisreykingum í bílakjallara, Mennirnir reyndust einnig farnir sína leið þegar lögregla mætti á staðinn.
Rétt fyrir klukkan 21 í gærkvöldi annsakaði lögregla sölu og dreifingu fíkniefna. Framkvæmd var húsleit og málið er í rannsókn. Lögregla rannsakaði einnig meinta líkamsárás og vopnalagabrot en barnavernd og foreldrar voru viðstaddir þar sem þeir sem áttu aðild að málinu voru ekki orðnir 18 ára.
Í nótt barst lögreglu svo tilkynning um menn sem voru að hringja dyrabjöllum og vekja fólk. Voru þeir farnir þegar lögregu bar að.