Um þúsund manns safnaðist saman við Hlemm í dag og gengu samstöðugöngu á Austurvöll til stuðnings Palestínu.
Félagið Ísland-Palestína boðaði til samstöðugöngu frá Hlemmi að Austurvelli klukkan 14:00 í dag en um þúsund manns mætti en á Austurvelli var síðan haldinn kröfufundur. Á fundinum var þess krafist að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra, standi við gefin kosningaloforð gagnvart þjóðamorðinu á Gaza.
Hér má sjá kröfur fundarins:
1. Að Ísland styðji ákæru Suður-Afríku á hendur Ísraelsríkis fyrir brot á Sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn þjóðarmorði
2. Að Ísland komi á viðskiptaþvingunum gegn Ísrael í samstarfi við Norðurlöndin og önnur ríki eins fljótt og auðið er
3. Að stjórnmálasambandi við Ísrael verði slitið
- Auglýsing -
4. Að Ísland beiti sér fyrir alþjóðlegu vopnasölubanni til Ísraels
5. Að þeir aðilar sem hafa tekið þátt í, fyrirskipað eða hvatt til þjóðarmorðsins á Gaza verði dregnir fyrir íslenska dómstóla ef þeir koma til landsins eins og lög um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði segja til um. Athugið að þessir glæpir fyrnast aldrei.
Ræðumaður fundarins var Sveinn Rúnar Hauksson, fyrrverandi formaður Félagsins Ísland -Palestína en hann sagði meðal annars frá heimsókn sinni nýverið á Vesturbakkann þar sem hann heimsótti palestínska vini sína. Sagði hann ástandið á Vesturbakkanum miklu verri en hann hafði gert sér í hugalund.
- Auglýsing -
Magnús Magnússon, gjaldkeri Félagsins Ísland – Palestína flutti einnig tilfinningaþrungna ræðu sem má lesa hér fyrir neðan í heild sinni:
„Áður en við slítum þessu í dag vil ég þakka ykkur öllum aftur fyrir að koma og sýna stuðning ykkar í verki. Það hefur aldrei verið mikilvægara að gefast ekki upp og ég þakka ykkur fyrir úthald ykkar.
Síðustu 15 mánuðir hafa verið martröð. Í símunum okkar höfum við horft á útrýmingarherferð Ísraela á Gaza í beinni. Á hverjum degi sjáum við fleiri myrt börn, fleiri sjúkrahús sprengt og fleiri tjöld brenna. Lífsnauðsynlegum innviðum tortrímt.
Við fylgjumst með óstjórnarlegum kvalarlosta Ísraelskra hermanna. Stoltir sýna þeir okkur skriðdreka sína og jarðýtur skreytta með leikföngum myrtra barna. Flissandi taka þeir myndir af sér í undirfötum palestínskra kvenna. Hugrakkir ráðast þeir inná sjúkrahús og skóla og brenna og brenna og brenna allt. Þegar Ísraelskum hermönnum var bannað að nauðga Palestínskum föngum í pyntingardýflissum sínum þá réðust þér á eigin dómstóla. Ásetningur þeirra er klár bæði í orðum og gjörðum. Öllu sem viðheldur lífi á Gaza á að eyða og öllum Palestínumönnum á að útrýma.
Á sama tíma hafa leiðtogar okkar og stofnanir brugðist okkur fullkomlega. Enginn nema almenningur og verkalýðshreyfingin þora að sýna samstöðu með Palestínu. Palestínskir fánar fá ekki að blakta við ráðhúsið, ljós Hörpu eru aldrei í palestínsku fánalitunum. Ráðafólk er ennþá að hugsa málið og hefur miklar áhyggjur af ástandinu en það fullvissar okkur um að þá sé of snemmt að grípa til aðgerða og að þjóðarmorð sé aðeins lagatæknilegt orð sem sé ekki hægt að nota fyrr en eftir úrskurð Alþjóðadómstólsins. Þrátt fyrir að sami dómstóll hafi fyrirskipað Ísrael að hætta öllum hernaðaraðgerðum á Gaza fyrir tæplega ári síðan, þrátt fyrir að virtustu mannréttindasamtök heims segi að Ísrael sé að fremja þjóðarmorð og þrátt fyrir að Alþjóðlegi glæpadómstóllinn hafi gefið út handtökuskipanir gegn ráðamönnum í Ísrael.
En við ætlum ekki að gefast upp gagnvart verkefninu framundan. Við ætlum ekki að láta vonleysið ná tökum. Helför Ísraels á Gaza verður að stöðva!
Við höfum unnið marga sigra á seinasti ári og við ætlum að halda áfram að vinna. Ríkisstjórn Íslands skal beita sér fyrir viðskiptaþvingunum og brottvísun Ísraels úr alþjóðasamstarfi. Fyrirtæki skulu draga fjárfestingar sínar burt frá Ísrael. Ísraelskir hermenn munu ekki geta ferðast vegna handtökuskipana. Palestínumenn eiga skilið frelsi og réttlæti, þeir eiga skilið hugrekki okkar allra!