Fjölskylda Brians sem handtekinn var á aðfangadag án persónuskilríkja, er komin með lögfræðing í málið.
Sjá einnig: Brian var handtekinn á aðfangadagskvöld að ósekju: „Þau þurftu að vita það af því hann er svartur“
Sjá einnig: Lögreglan kannast ekki við frásögn af handtöku Brians – Sofandi aðili handtekinn í Austurbænum
Þórunn Helgadóttir segir í samtali við Mannlíf að fjölskyldan sé komin með lögfræðing vegna handtökunnar á stjúpsyni hennar, Brian en lögreglan lét hann dúsa í fangaklefa á aðfangadagskvöld vegna þess að hann var ekki með persónuskilríki. Brian er frá Kenía en hefur dvalið hér á landi frá árinu 2014.
„Já við erum komin með lögfræðing sem sérhæfir sig í svona málum. Hann segir að kjarninn í þessu sé að hann er handtekinn án ákæru. Það er ekki ákæra að vera ekki með skilríki á sér.“
Þá segir Þórunn að lögreglan hafi ekki farið eftir meðalhófsreglunni. „Þar fyrir utan er til eitthvað sem heitir meðalhófs regla. Það að stinga einhverjum í fangaklefa á aðfangadagskvöld án einhvers sem leiðir til ákæru er langt handan við það. Hann sem sagt mun fara vel ofan í málið.“