Fjölskyldumeðlimur gaf tveimur börnum, 5 og 11 ára, gúmmíbangsa sem innihéldu THC, ofskynjunarefni sem finnst í kannabis, en RÚV greinir frá þessu en var það óviljaverk hjá fjölskyldumeðlimnum. Börnin voru flutt á sjúkrahús í gær en verða útskrifuð fljótlega að sögn Valtýs Thors, yfirlæknis barnalækninga við Landspítalann.
Valtýr segir að svona mál hafi komið upp en þó ekki oft. „Ég er ekki með nákvæma tölu um þetta, um gúmmíbangsa, en þetta er eitthvað sem við höfum verið að sjá af og til. Það er kannski ekki mikið meira en það sem hefur komið í fréttum, en eitthvað. Þetta er eitthvað sem við sáum aldrei áður en þegar þetta kemur „nýtt inn á markað“ er augljóst að þetta muni gerast. Þá er það bara spurning um tíma,“ sagði Valtýr við Vísi um eitrunina.
„Sum einkennin eru meira óþægindi á meðan önnur eru alvarleg og geta verið alveg lífshættuleg.“
Ekki borða ókunnugt nammi
Valtýr hvetur fólk til að gefa ekki börnum nammi sem það kann ekki skil á.
„Ef fólk finnur heima hjá sér, í vinnu eða úti á víðavangi poka með gúmmíi sem lítur út eins og sælgæti á aldrei að borða það sjálfur og allra síst að gefa börnunum sínum slíkt. Fyrir þá sem hafa keypt svona til eigin nota er lykilatriði að þetta sé geymt á þannig stað að börn komist ekki í þetta.“