Laugardagur 4. janúar, 2025
-5.2 C
Reykjavik

Fjórir létu lífið í krapaflóðunum á Patreksfirði: „Eins og mórautt jökulhlaup félli úr gilinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Laugardagurinn 22 janúar 1983 var örlagaríkur dagur fyrir íbúa Patreksfjarðar. Dagurinn var ekki frábrugðinn öðrum laugardögum nema að því leyti að halda átti þorrablót um kvöldið, margir voru því spenntir.

Nóg var að gera hjá björgunarsveitinni á svæðinu en fjöldi tilkynninga hafði borist vegna úrhellisrigningar sem fallið hafði um nóttina. Moka þurfti snjó af þökum, dæla vatni úr kjöllurum og ryðja frá niðurföllum.

Upp úr klukkan tíu um morguninn hringdi Guðjón Petersen, framkvæmdastjóri Almannavarna, í Stefán Skarphéðinsson, sýslumann á Patreksfirði og tilkynnti honum að Veðurstofa Íslands hafi gefið út tilkynningu um snjóflóðahættu. Hættan var mikil á Patreksfirði og því þótti nauðsyn að fylgjast þar vel með.

Um hálftíma eftir símtalið var búið að senda tilkynningu á Ríkisútvarpið og hún lesin þar; íbúar á Patreskfirði voru sérstaklega beðnir um að fara varlega vegna snjóflóðahættu.

Seinnipart laugardagsins voru heimamenn farnir að veita Geirseyrargili sérstaka athygli, ekki var þó talin hætta á flóði úr gilinu. Starfsmenn Patrekshrepps unnu hörðum höndum við að halda farvegi gilsins greiðum.

Þrátt fyrir aðgerðir var vatn farið að flæða í miklu mæli inn í bæinn og um íbúagötur og var þá lögð áhersla á að halda ræsum opnum til að forða frá eignatjóni.

- Auglýsing -

Nokkur börn söfnuðust saman nálægt gilinu þar sem þau renndu sér í snjónum. Þegar Pétur Sveinsson, lögregluvarðstjóri, tók eftir undarlegu ástandi í gilinu fór hann beinustu leið og sótti börnin, eitt barnanna var sonur hans. Börnin fóru öll til síns heima nema eitt, sem fór heim með Pétri og syni hans. Þessi ákvörðun reyndist örlagarík þar sem drengurinn átti heima í einu húsanna sem varð undir flóðinu. Stuttu eftir að Pétur kom heim með drengina tvo, heyrðu þeir háan hvell. Þegar þeir litu út um stofugluggann sáu þeir um 15 metra háa flóðbylgju skella á tveimur húsum og æða síðan áfram.

Stuttu síðar þeyttust ógnarháar vatnssúlur upp í loftið í gilmunanum, hljóp þá fram stórt krapaflóð sem sagt er hafa líkst vegg sem óx því nær sem hann kom bænum. Annað flóð lenti á bænum stuttu síðar en 20 hús skemmdust í flóðunum, fjórir létu lífið.

- Auglýsing -

„Ég sá flóðið vaða niður úr gilinu og húsin tætast upp. Eftir það hugsaði ég aðeins um að komast inn í húsið til unnustu minnar,“ sagði Helgi Páll Pálmason, í samtali við Morgunblaðið á sínum tíma.

„Ég get ekki á nokkurn hátt lýst því hvernig mér var innanbrjósts, þegar ég sá flóðið falla, né heldur hve langan tíma það tók. Mér virtist það vera allt að fjögurra metra hátt en get þó ekki sagt um það með nokkurri vissu. Hér hefur vissulega orðið ómetanlegt tjón. Þó veraldlegir hlutir hafi ekki verið metnir enn, verða mannslíf aldrei metin til fjár. Ég vil svo koma miklu þakklæti á framfæri til allra þeirra, sem aðstoðuðu okkur við björgunarstörfin. Án hjálpar þeirra hefðu þau ekki gengið eins vel og raun bar vitni,“ sagði Úlfar Thoroddsen, sem bjargaði sér með því að hlaupa frá flóðinu.

„Þegar fyrra flóðið féll var ég staddur í húsinu Bræðraborg við Litladalsá að dæla vatni úr kjallara. Þá kölluðu menn, sem stóðu hjá, að gilið væri hlaupið. Þegar ég leit upp var að sjá, niður eftir hlíðinni og skylli á húsunum,“ sagði Haraldur Karlsson, formaður björgunarsveitar Slysavarnafélags Íslands, en hann var einn af þeim fyrstu á slysstaðinn.

Nöfn þeirra sem létust voru Marteinn Ólafur Pétursson, Aðalstræti 79, fæddur 9. desember 1941, 42 ára; Sigrún Guðbrandsdóttir, fædd 3. desember 1976, 6 ára, dóttir hjónanna Vigdísar Helgadóttur og Guðbrands Haraldssonar, Hjöllum 2; Sigurbjörg Sigurðardóttir, Brunnum 13, fædd 13. ágúst 1924, 58 ára, og Valgerður Jónsdóttir, Aðalstræti 79, fædd 23. janúar 1906, 77 ára.

Heimildir: Morgunblaðið, 1983 og Krapaflóðin á Patreksfirði eftir Egil St. Fjeldsted

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -