„Gul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu en búist er við fljúgandi hálku og því mikilvægt að fara varlega,“ segir í færslu á vefsíðu Reykjavíkurborgar.
„Eftir hlákuna í nótt mun kólna aftur í dag og það skapar varhugaverðar aðstæður í húsagötum, sérstaklega fyrir gangandi vegfarendur, sem ættu að nýta sér hálkuvarnir á skófatnað,“ segir jafnframt og að vetrarþjónusta borgarinnar sé nú í fullum gangi við að salta stíga.
Þá segir í spá veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands: „Eftir suðlæga átt næturinnar með rigningu og skammvinnum hlýindum þá gengur í suðvestan 15-23 m/s með éljum og kólnandi veðri í dag, hvassast suðvestantil. Hríðaviðvaranir taka gildi í kringum hádegi á sunnan- og vestanverðu landinu. Norðaustantil á landinu styttir hins vegar upp og birtir til er líður á daginn. Frost 0 til 6 stig í kvöld.“
„Vetrarþjónusta borgarinnar mun leggja áherslu á að halda aðalleiðum opnum en ítrekað er að fólk fari varlega á ferðum sínum í dag.“