Fimmtudagur 2. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

„Flóttinn frá móðurmálinu svo æðisgenginn að það má ekkert vera skrifað á ylhýrri mállýskunni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölmiðlamaðurinn skeleggi, Sigmundur Ernir Rúnarsson,mundar pennann af sinni alkunnu snilld.

Segir:

„Tvennt er í boði þegar tekið er á móti ferðamönnum utan út heimi. Það er hægt að aðhæfa menningu og þjónustu að erlenda gestinum, ellegar að láta hann laga sig að sérstöðu landsins. Íslendingar hafa í auknum mæli – og víða algerlega – valið fyrri kostinn,“ ritar Sigmundur Ernir í grein sem birtist á DV.

Hann bætir þessu við:

„Í reynd má ganga svo langt og segja að ferðaþjónustan hér á landi fari ekki lengur fram á íslensku. Og þeim túristum sem halda að enska sé þjóðtunga heimamanna er vitaskuld vorkunn. Það fer allt fram á útlensku. Jafnt í orði og á borði. Og flóttinn frá móðurmálinu er raunar svo æðisgenginn að það má helst ekkert lengur vera skrifað á ylhýrri mállýskunni. Hvorki skilti né skilaboð. Það er nefnilega líkast því sem ferðaþjónustubændur haldi að túristar muni ekki skilja nokkuð einasta í sinn haus ef þeir ráfi um íslenskan veruleika – á máli innfæddra – og endi hér að lokum sem strandaglópar fyrir vikið. Þess þá heldur að leiðsegja þeim í einu og öllu á erlendri tungu.“

- Auglýsing -

Sigmundur Ernir segir einnig:

„Að einhverju leyti er þetta óviðráðanlegt, svo allrar sanngirni sé gætt, því svo fáliðaðir eru heimamenn á móti stríðum straumi ferðamanna að þeir þurfa liðsinni. Starfsmenn íslenskrar ferðaþjónustu eru að stærstum hluta útlendingar sem ætla sér að dvelja hér um skamma hríð. Þeim er ekki nokkur akkur í því að læra tungumál heimamanna – og svo virðist þar að auki sem íslenskir vinnuveitendur þeirra hafi lítinn sem engan áhuga á því að kenna þeim einföldustu orðin í málinu. Og hafa sennilega ekki tíma til þess í önnum dagsins. Svo sem að kaffi merki coffee. Og bjór þýði beer. Fyrir vikið er upplifunin af Íslandi helst til útlensk.“

Hann nefnir líka að „í hljóði og fyrir sjónum þeirra, sem sækja landið heim, blasir við innfluttur orðasveimur. Aðflutt menning. Alls staðar. Alltaf. Coffee í stað kaffis. Og þetta er þeim mun snautlegra þegar fyrir liggur að flestir erlendu ferðamennirnir sem sækja norður á hjara veraldar eru hingað komnir til að sjá einstaka menningu á endimörkum jarðar.

- Auglýsing -

Þeim hefur verið sagt að hér hafi fámenn þjóð hafst við í rífar tíu aldir við svo mótdrægar aðstæður af völdum einangrunar, farsótta, kulda, móðuharðinda og annarra náttúruhamfara að hún hafi verið við það að deyja út þegar verst lét. Samt hafi hún varðveitt tungu sína, menningu og sögu betur en langtum fjölmennari þjóðir – og lært að laga sig svo vel að einstöku og ólýsanlegu náttúrufari að hún hafi að lokum náð að beisla hana og nýta sér til framfara og heilla.

En svo lendir sá hinn sami og fréttir af þessu landi inni í plebbalegri leikmynd einhverrar bjánalegrar B-myndar þegar hann ráfar upp Laugaveginn í Reykjavík sumarið 2024. Hann hittir fyrir þjóð sem hefur tapað sjálfsmynd sinni – og heldur ekki lengur þræði í tóskap aldanna. Til sölu er aðallega innflutt drasl af fljótustu og forsmáðustu færiböndum heimskapítalismans. Og sölumaðurinn talar lélega ensku – og hefur að lokum ekki hugmynd um hvað kaupandinn á við í lok viðskiptanna, þegar hann spyr til vegar, því hann langar að ganga upp að Hallgrímskirkju.“

Hann segir að það sama eigi líka við um „elskulega en innflutta leiðsögumenn sem standa á gati upp í öræfum, af því að þeir þekkja ekki umhverfið. En kunna þó líklega eitthvað í ensku. Og geta gúglað sitthvað um landamerkin og söguna. Einmitt að Laxness hafi unnið Óskarinn. En Björk Nóbelinn.

Íslenskir ferðalangar sem hafa verið á vappi á meginlandi Evrópu í sumar – og þar á meðal í mörgum helstu stórborgum álfunnar – segjast taka eftir því heimamenningin hafi ekki tapað fyrir erlendum áhrifum. París sé enn þá frönsk. Barcelóna katólónsk. Og Róm sé ítölsk. Engum heilvita manni í þessum borgum detti til hugar að ávarpa gesti sína á enskunni einni saman, þá hina sömu förumenn og dásama heimaskiltin – og finnst eins og þeir séu einmitt komnir til útlanda. Líkt og að var stefnt.

Á meðan þorir íslensk ferðaþjónusta ekki að koma fram í eigin nafni. Og hún misskilur algerlega einstaka sérstöðu sína. Hún velur að vera önnur en innihaldið.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -