Stóra fíkniefnamálið svokallaða vakti umtalsverða athygli í kringum aldarmótin. Sakborgningar í málinu voru 19 talsins en fjórir þeirra voru sýknaðir.
„Ólafur fékk þyngsta fangelsisdóminn, 9 ár, og einnig var fé í hans vörslu, 5,2 milljónir kr., gert upptækt. Um er að ræða þyngsta dóm sem kveðinn hefur verið upp í fíkniefnamáli hér á landi. Sverrir fékk næstþyngsta dóminn, sjö og hálfs árs fangelsi, og gert var upptækt fé, 21 milljón,“ sagði í Morgunblaðinu eftir að dómur féll í málinu þann 28.júní árið 2000.
Gunnlaugur nokkur var sumarstarfsmaður hjá Samskipum og nýtti sér aðstöðu sína til að flytja fíkniefni til landsins í stórtæku magni. Hann faldi efnin meðal annars í raftækjum.
„Gunnlaugur, sem fæddur er 1972, var dæmdur í 4 ára og sex mánaða fangelsi. Hann var fundinn sekur um að flytja inn mikið magn fíkniefna til landsins og selja það að miklu leyti. Hann framdi brot sín að hluta í samvinnu við aðra og er það virt honum til refsiþyngingar. Þá notfærði hann sér aðstöðu sína sem starfsmaður Samskipa hf. og brást trausti sem starfsmaður skipafélags. Brot hans þykja stórfelld og þaulskipulögð. Hann var búsettur í Danmörku og starfaði þar hjá Samskip. Sannað þykir að hann hafi flutt inn 7 kg af kannabis í félagi við einn meðákærða í september 1999. Þá flutti hann inn 38 kg af kannabis í 15 ferðum á tímabilinu desember 1997 til september 1999, einn í fyrstu þremur ferðunum, en síðar í félagi við einn meðákærðu. Sannað þótti að hann hefði flutt inn 150 töflur af MDMA í apríl 1999, 100 töflur af MDMA og 100 g af amfetamíni í júlí 1999,“ sagði í frétt Morgunblaðsins.
Aðrir sakborningar sáu ýmist um að dreifa, selja og aðstoða við innflutning efnanna. Einn þeirra var Herbjörn en hann sá um nokkurskonar dópþjónustu í Kaupmannahöfn og veitti alhliða þjónustu í þeim efnum. „Ef einhver ætlaði að kaupa dóp erlendis og smygla til landsins var vitað að hægt var að snúa sér beint til Bjössa og fá afnot af dópleiðinni en þá þurfti líka að kaupa dópið hjá Bjössa. Það má segja að hann hafl bæði verið heildsali og flutningamiðlari í þessum efnum,“ sagði heimildarmaður DV árið 1999
„Þeir sem hlutu tveggja ára fangelsisdóm eða lengri voru Júlíus, 5 ár og sex mánuðir, Gunnlaugur, 4 ár og sex mánuðir, Rúnar, 4 ár, Guðmundur 3 ár og sex mánuðir, Valgarð, 3 ára fangelsi, Ingvar, 2 ár og sex mánuðir, Herbjörn, 2 ár og sex mánuðir, og Haraldur, 2 ár. Einn sakborningur var dæmdur í 18 mánaða fangelsi, einn í 15 mánaða fangelsi, einn í 10 mánaða fangelsi og loks fékk einn tveggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm.“