Mikill eldur kviknaði í sorpgeymslu Kölku á Suðurnesjum. Ekki er talið að neinn hafi verið á svæðinu og hefur slökkvilið náð tökum á eldinum.
Jón Ingi Gunnsteinsson, vélstjóri hjá Kölku ræddi við Vísi um málið:„Það er bara að verða brunnið niður. Þeir voru eitthvað að sprauta á þetta áðan en ég held að þeir séu nú hættir eða að minnka það, þeir eru bara búnir að átta sig á því að þetta verður bara að brenna niður,“ sagði hann.
„Stórbruni í Helguvík og leggst mikill reykur í átt að Garðinum. Biðjum íbúa þar að loka gluggum hjá sér. Jafnframt biðjum við fólk að vera skjólmegin við reykinn þar sem hann er afar eitraður,“ segir í færslu frá lögreglunni á Suðurnesjum.