Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

„Fólk er ekkert öruggara á veitingastöðum en á skemmtistöðum og krám“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er ekkert grín að vera í þvingaðri rekstrarstöðvun í lengri tíma.“ Þetta segir Þórhallur Viðarsson, rekstrarstjóri og einn eigenda skemmtistaðarins B5 í Bankastræti 5 í samtali við Mannlíf. Þeim stöðum sem eru skilgreindir sem krár og skemmtistaðir hefur verið gert að loka á meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir og óvissa er uppi um hvenær þessir staðir fá að hefja rekstur aftur.

Arnar Þór Gísason sem rekur ásamt fleirum staðina Kalda bar, Den Danske Kro, Enska barinn, The Irishman Pub og Lebowski bar segir það vera „óskiljanlegt“ að fólk fái að drekka bjór á veitingastöðum en ekki á krám og skemmtistöðum. Þórhallur tekur undir með honum.

„Ferðaþjónustan hefur lamast en líka ákveðinn angi veitingabransans,“ segir Þórhallur um þá stöðu sem er komin upp vegna samkomubannsins.

Þórhallur tekur fram að allir sem komi að rekstri B5 séu með yfirvöldum í liði en að það sé þó erfitt að skilja af hverju það sama gildi ekki um alla staði hvað takmarkanir varða.

„Af hverju mega staðir sem eru skilgreindir sem skemmtistaðir eða krár ekki starfa með sömu takmörkunum og veitingastaðir,“ spyr Þórhallur. „Ég skil vel að við getum ekki sinnt aðalstarfsemi okkar, sem er skemmtanalíf á næturnar, en af hverju fáum við ekki að hafa opið fyrir 50 manns, virt tveggja metra regluna og lokað kl 23:00 eins og aðrir staðir,“ spyr Þórhallur. „Fólk er ekkert öruggara á veitingastöðum en á skemmtistöðum og krám,“ bendir Þórhallur á. „Svo lengi sem takmarkanir eru virtar að öllu leyti,“ leggur hann áherslu á.

Spurður út í hvort að honum finnist skemmtistaðir og krár hafa gleymst í dæminu segir hann: „Það er allavega skrítið að við fáum ekki að krafsa eitthvað eins og aðrir. Það er einkennilegt að í okkar bransa fái ekki allir að starfa undir sömu takmörkunum.“

- Auglýsing -

Húsaleigan hækkuð „verulega“

Til að bæta gráu ofan á svart hefur leigusalinn sem á húsnæðið sem B5 er í hækkað leiguna. Þórhallur segir hækkunina vera „verulega“.

„Leigusalinn, Eik fasteignafélag, innheimtir hækkaða leigu með krepptum hnefa, á þessum tíma sem talað er um að allir eigi að standa saman. Við höfum alltaf staðið í skilum þannig að við erum ósáttir með þessa verulegu hækkun sem kemur á þessum tímapunkti.“

- Auglýsing -
B5 er til húsa í Bankastræti 5. Mynd / Unnur Magna

Óvissan verst

Þórhallur segir óvissuna sem ríkir vera það versta. „Ég er búinn með neglurnar, ég hef ekki fleiri neglur til að naga. Þetta er lífsviðurværi manns sem hverfur. Svo er verið að veifa einhverjum dagsetningum framan í mann, það hefur verið talað um 25. maí og svo 2. júní en ekkert hefur verið staðfest,“ segir Þórhallur.

„Ég er búinn með neglurnar, ég hef ekki fleiri neglur til að naga.“

Aðspurður hversu lengi þeir geti þraukað í þessari stöðu segir Þórhallur: „Það fer svolítið eftir því hvort að leigufélagið komi eitthvað til móts við okkur. Og svo hvenær við fáum að opna aftur. Þetta er mikil óvissa og maður tekur bara einn dag í einu.“

Hann segir að reksturinn hafi sem betur fer gengið vel undanfarin ár og þess vegna séu eigendur B5 í ágætri aðstöðu til að takast á við áföll.

Þórhallur leggur áherslu á að sér og öðrum í sömu stöðu, sem reka staði sem eru skilgreindir sem krár eða skemmtistaðir, þyki verst að þeir fái ekki möguleika á að reka sína staði áfram með takmörkunum líkt og veitingahúsin. „Það er svolítið einkennilegt.“

Sjá einnig: „Óskiljanlegt“ að fólk fái að drekka bjór á veitingastöðum en ekki á krám

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -