Sunnudagur 29. desember, 2024
-4 C
Reykjavik

Fólk með sjúkdóma óttast um líf sitt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fólk með undirliggjandi sjúkdóma óttast mjög að smitast af kórónaveirunni, að sögn formanns Öryrkjabandalags Íslands. Þeim sem eru veikir fyrir stafar meiri ógn af veirunni en þeim sem eru hraustir. Línur Hjálparsíma Rauða krossins hafa verið rauðglóandi undanfarna daga. Öryrkjar og aldraðir eru áberandi í hópi innhringjenda.

„Margir öryrkjar eru með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma og eru þess vegna í meiri hættu en aðrir,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands í samtali við Mannlíf. Þeim sem eldri eru og þeim sem eru með undirliggjandi sjúkdóma stafar mesta ógnin af Covid19-faraldrinum, sem stafar af kórónaveirunni en um 20 tilfelli hafa greinst hér á landi þegar þetta er skrifað. Á blaðamannafundi á þriðjudaginn kom fram að margir mánuðir gætu liðið áður en faraldurinn verður um garð genginn.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir.

Þuríður segir að margir meðlimir Öryrkjabandalagsins séu hræddir vegna ástandsins og óttist mjög hið versta. „Fólk með undirliggjandi sjúkdóma óttast bara um líf sitt. Það kemur berlega í ljós í samtölum þar sem þetta fólk er að tjá sig,“ segir Þuríður um öryrkja. Hún segir afar sorglegt að lesa fréttir um að fólk hafi hunsað tilmæli Landlæknis um að halda sig í sóttkví. „Það er ofboðslega sorglegt ef fólk er ekki að taka tilmælunum alvarlega um að vera í sóttkví. Það getur sett þá sem eru veikir fyrir í mikla hættu,“ segir Þuríður

Þórunn Sveinsbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir í samtali við Mannlíf að margt eldra fólk sé búið „gamla góða æðruleysinu“ og taki þessum fréttum af ró. „Fólk veit að það getur hallað undan fæti þegar það eldist. Fólk með undirliggjandi sjúkdóma reynir að verja sig og umgangast ekki eins mikið annað fólk,“ segir hún, aðspurð hvernig eldri borgarar bregðist við fréttunum. Hún vekur athygli á því að eldra fólk fylgist oft mjög vel með fréttum og fari að fyrirmælum, þó að netnotkun sé ef til vill ekki almenn. „Eldri borgarar eru mjög duglegir að þvo hendur og fyrirbyggja smitleiðir,“ útskýrir hún.

Hún segir þó að þessum fréttum geti fylgt kvíði og einmanaleiki. „Þá mæðir á hjálparsíma Rauða krossins. Aldraðir sem eru einmana heima hjá sér, og reyna kannski að forðast samneyti við fólk á meðan þetta gengur yfir, finnur oft fyrir einmanaleika. Ég gæti trúað því að símtölum í hjálparsímann hafi fjölgað,“ segir hún.

Þrefalt fleiri svara í símann

- Auglýsing -

Það má til sanns vegar færa. Hjá hjálparsíma Rauða krossins loga allar línur. Þar svara sex til sjö manns í símann þegar þetta er skrifað en þörfin er metin jafnóðum. Á venjulegum degi, þegar er ekkert sérstakt er í gangi í samfélaginu, svara tvær manneskjur í símann.

Sandra Björk Birgisdóttir.

Sandra Björk Birgisdóttir, verkefnastjóri Hjálparsíma Rauða krossins 1717, segir að bæði öryrkjar og aldraðir séu áberandi í hópi innhringjenda síðustu daga og vikna. Hún tekur þó fram að bæði kyn, fólk af ýmsum aldri og fólk sem tilheyrir fjölbreyttum þjóðfélagshópum hringi í hjálparsímann. „En þetta hefur aukist núna, með tilkomu þessarar veiru. Fólk er að hringja í okkur þegar það er kvíðið og líður illa yfir þessu.“ Hún segir að hjálparsíminn sé öllum opinn. „Við erum til staðar fyrir alla. Við veitum fólki upplýsingar og þær leiðbeiningar sem gott er að fara eftir. Við erum mjög fljót að fá nýjustu fréttir og miðlum þeim svo til þeirra sem hringja inn.“

Spurð hvað brenni helst á fólki svarar Sandra því til að margir hringi inn til að spyrja hvort þeir eigi að gera eitthvað sérstakt eða gæta sín á hinu eða þessu. „Eldra fólkið er kannski ekki með tölvur og Net eins og yngra fólkið. Það les frekar dagblöðin.“ Hún bendir á að upplýsingarnar geti breyst svo hratt að fólk geti þurft að sækja sér nýrri upplýsingar en þær sem birtast í dagblöðunum. „Svo stundum hringir fólk vegna þess að því finnst það þurfa að tala við einhvern. Og við erum til staðar fyrir þá líka.“

- Auglýsing -

Þeir elstu í mestri hættu

Greining Worldometers á tveimur skýrslum, annars vegar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og hins vegar frá Stofnun sjúkdómaeftirlits og sjúkdómavarna í Kína, sem samtals fjalla um 128 þúsund tilfelli smita, sýna að líkur á dauða eru meiri eftir því sem fólk eldist.

Alls hafa 14,8 prósent þeirra sem eru 80 ára og eldri og veikst hafa af COVID-19, látist. Hlutfallið er átta prósent hjá þeim sem eru á aldrinum 70 til 79 ára. 3,6 prósent þeirra sem hafa veikst á aldrinum 60-69 ára hafa látist en 1,3 prósent þeirra sem eru á aldrinum 50-59 ára. Hlutfall dauðsfalla hjá þeim sem eru yngri er á bilinu 0,2 til 0,4 prósent. Engin börn yngri en níu ára hafa látist af völdum veirunnar. Tekið skal fram að ekki öll 128 þúsund tilvikin hafa verið staðfest á rannsóknarstofu, heldur eru þau tilvik einnig tekin með þegar sterkur grunur leikur á smiti.

Þegar andlát af völdum COVID-19 eru skoðuð eftir kynjum kemur í ljós að 2,8 prósent allra karla sem smitast hafa, hafa látist, en 1,7 prósent kvenna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -