Heilsufrömuðurinn Guðmundur Emil Jóhannsson segist elska að gera erfiða hluti alla daga og skora sjálfan sig á hólm. Gummi, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, mætti í settið beint eftir að hafa farið á rafhlaupahjóli yfir hálfa borgina á stuttbuxum einum fata.
„Puttarnir verða kaldastir ef maður er ekki með hanska eða vettlinga, en það þjálfast líka. Ég vil hafa þetta erfitt. Ég var sirka 25 mínútur á hjólinu núna og það var vindkæling, en þetta er bara snilld. Að fara í kuldann er eitt það erfiðasta sem maður gerir, en ég er búinn að vera að fara hálftíma til klukkutíma alla daga og svo fæ ég í leiðinni sólarljós og D-vítamín. Við búum á Íslandi og eigum að geta þolað kuldann. Svo er þetta geggjuð hugleiðsla líka. Ég syng stundum og bið guð um að gefa mér góða hluti ef hausinn ætlar eitthvað að fara að kvarta. Þá fer ég bara í þakklætið og minni mig á hvað lífið er frábært og hvað það er margt sem við getum þakkað fyrir. Svo hjálpar þetta manni að minna sig á alla hlutina sem við tökum sem sjálfsögðum. Núna er mér ískalt, en þá kann ég líka að meta það þegar ég er kominn inn í heitt hús með ofnum. Ég er búinn að vera að taka þetta upp á næsta stig núna undanfarið. Ég er búinn að fara á stuttbuxunum upp Esjuna í snjóstormi og inn Reykjadalinn í mikilli vindkælingu. Við ætlum að fara núna 13 apríl upp Esjuna og vonandi koma 300-500 manns með.“
Gummi hefur vakið mikla athygli fyrir vaska framgöngu á samfélagsmiðlum, þar sem hann birtir reglulega myndbönd af sér að æfa úti í kuldanum, öskra sig í gang og fleira sem fæstir myndu gera:
„Það tók mig smá tíma að þora að vera ég sjálfur og hætta að hugsa um álit annarra. Mér er skítsama ef einhver finnst ég skrýtinn. Ég er að gera þetta fyrir mig og veit að ég er að hafa jákvæð áhrif. Ég heyri mjög mikið af jákvæðum hlutum, en svo er reglulega verið að segja mér að fólk sé að spyrja: ,,Er hann búinn að missa vitið?” En ég veit hver ég er og fyrir hvað ég stend og það er ekki draumurinn minn að vera eins og allir hinir. Ég er bara orðinn frjáls og geri það sem ég vil. Það er stórkostlegt að þora að vera maður sjálfur og þora að stíga inn í styrkinn. Það kom frétt á RÚV upp úr viðtali við mig um daginn þar sem fyrirsögnin var að ég ætlaði ekki að deyja úr því að vera aumingi. Það var eitthvað fólk sem vildi taka þetta úr samhengi og búa til eitthvað neikvætt, en ég veit að þau meina ekkert slæmt. Það er þunglyndis- og kvíðafaraldur í gangi á Íslandi og við verðum að gera eitthvað í því. Ef ég næ að hafa jákvæð áhrif á ungt fólk og fá það til að vera meira úti í náttúrunni, hreyfa sig, fara í kuldann og hætta að borða óhollt, þá er ég að gera eitthvað rétt.“
Gummi segist fá mikil verðlaun við að gera erfiða hluti og þannig finni hann tilgang, gleði og hamingju:
„Ég má ekki lifa of þægilegu lífi. Ef ég geri ekki mikið af erfiðum hlutum mjög reglulega enda ég bara óhamingjusamur. Ég er með mikla orku og verð að losa hana á heilbrigðan hátt. Það hefur alltaf hentað mér að hafa aga og þurfa að erfiða. Alveg frá því að ég æfði fótbolta sem gutti og var sagt að hlaupa úti í snjónum og grjóthalda kjafti þó að mér væri ískalt hef ég fílað það að fá að reyna mikið á mig. Forfeður okkar voru hart og sterkt fólk og ég held að það sé innbyggt í okkur að hafa fyrir hlutunum. Við sjáum bara tölurnar þegar kemur að þunglyndi og kvíða hjá ungu fólki. Það er allt of mikið um tilgangsleysi og vanlíðan af því að lífið er orðið of auðvelt og stefnulaust,“ segir Gummi og heldur áfram:
„Margir eru komnir í mikinn vítahring, en skilja ekki af hverju þeim líður illa. Þú ert kannski í símanum meira og minna allan daginn, drekkur orkudrykki og kaffi og borðar sykur og dópamínkerfið er bara komið á hliðina. Svo fattar þú ekki af hverju það er lítil orka og mikil vanlíðan, en auðvitað endar það ekki vel ef rútínan manns er orðin svona. Það þarf að hjálpa fólki að gera þessa tengingu, svo að það geti hægt og rólega byrjað að breyta lífi sínu í rétta átt.“
Gummi segir ekkert gefa sér jafnmikið eins og þegar hann fái að heyra að hann hafi jákvæð áhrif á fólk. Það gleður hann mikið að boðskapur hans hafi fengið mikla athygli meðal ungs fólks:
„Ég verð alltaf jafn þakklátur þegar ungir krakkar og ungt fólk kemur upp að mér og segir mér að ég hafi hvatt þau til dáða til að taka upp betri venjur og bæta líf sitt. Það er frábært að vera frjáls og ná að deila styrk og góðum boðskap með fólki. Ef ég get veitt ungu fólki innblástur þá veit ég að ég er að gera eitthvað rétt. Að mínu mati hefur aldrei verið meiri þörf á að hvetja fólk til dáða. Við erum öll í þessu saman. Ég fæ reglulega hjálp frá góðu fólki til þess að ég geti svo hjálpað öðrum. Ég stunda bæði bænir og þakklætisæfingar og verð að tengjast einhverju æðra til að hætta að vera of upptekinn af sjálfum mér. Það sem gefur lífinu gildi er að vera með tilgang, gefa af sér og hvetja aðra til dáða.“
Hægt er að nálgast viðtalið við Gumma Emil og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is