- Auglýsing -
Staðan í heilbrigðiskerfinu á Íslandi í dag er þannig að alvarlegur læknaskortur gæti skapast hér á landi á næstu áratugum samkvæmt spálíkani sem Læknafélag Íslands hefur látið gera.
Reynir Arngrímsson formaður Læknafélagsins segir afar mikilvægt að bæta vinnuaðstöðu lækna og efla sérfræðinám til að koma í veg fyrir þessa þróun – það verði hreinlega að gerast.
Sautján hundruð læknar verða starfandi hér á landi í lok þessa áratugar, ef marka má spálíkan Læknafélagsins, en þyrftu að vera um nítján hundruð, svo hægt sé að sinna öllum verkefnum.
Framtíðarspáin segir til um að staðan muni að óbreyttu versna meira og að árið 2040 muni vanta rúmlega tvö hundruð og fimmtíu lækna.
Reynir vill meina að ástæðurnar fyrir þessu slæma ástandi og hörmulegu framtíðarsýn séu margþættar; hækkandi meðalaldur Íslendinga kalli á aukinn fjölda lækna á komandi árum og að brýnt sé að bæta vinnuaðstöðu og draga úr vaktaálagi; svo íslenskir læknar skili sér aftur heim eftir nám í útlöndum.
„Ég held að umræðan um íslenskt heilbrigðiskerfi sé mjög neikvæð, sem fælir frá. Vinnuaðstaðan hérna er ekki eins góð og víða erlendis. Við sjáum það varðandi húsnæði og hvað það ætlar að dragast alveg ótrúlega lengi að klára nýja meðferðarkjarnann við Landspítalann. Nú horfir jafnvel svo við að það klárist ekki á núverandi kjörtímabili. Þannig að það eru vinnuaðstæðurnar hérna sem fyrst og fremst skipta máli hjá okkur. Ég held að það skipti verulegu máli að það þarf að vera aðlaðandi að fara í allar sérgreinar læknisfræðinnar og við sjáum í dag ákveðinn skort í sérgreinum hjá okkur sem við mönnum núna með til dæmis gestalæknum, erlendum, sem koma til að brúa bilið hjá okkur en vonandi fást læknar til að setjast hér að, Við birtum eina sviðsmynd en á hana má hafa áhrif með virkum íhlutunum af hálfu stjórnvalda og heilbrigðisstofnana,“ segir Reynir að lokum
Heimild: RÚV