Um það bil 200 starfsmenn útgerðarinnar Vísis eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Grindavíkur, samkvæmt formanni félagsins. Í ljósi frétta af yfirvofandi kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi segist hann vilja vera bjartsýnn og treystir því að Vísir verði áfram í Grindavík, enda sé bærinn bæði vel staðsettur og vinnslan afar vel búin tæknilega. Hann segist þó muna Gugguna á Ísafirði og loforðin sem þar voru sett fram á sínum tíma.
Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur segir að flestir þeirra félagsmanna sem starfi hjá Vísi vinni í fiskvinnslunni. Aðspurður hvort væntanleg kaup Síldarvinnslunnar á Vísi veki áhyggjur hjá verkalýðsfélaginu fyrir hönd félagsmanna segir hann félagið ætla að treysta því að yfirlýsingar um að útgerðin og vinnslan verði áfram í Grindavík standist.
„Fyrir utan að þeir átti sig á því hvað það er mikill mannauður í fyrirtækinu í Grindavík. Það er náttúrulega búið að vera að tæknivæða það mjög mikið. Það, plús staðsetningin, tel ég nú að sé til þess að meiri líkur en minni séu á því að þetta muni ekki vera til hins verra. Frekar að það verði uppbygging áfram,“ segir Hörður.
Hörður segist því treysta því að fyrirkomulagið verði áfram óbreytt eða breytist til hins betra. „Pétur hafði samband við okkur og bauð okkur á fund til þess að fara betur yfir þetta. Ég er reyndar í sumarfríi en við ætlum að reyna að hittast þegar við náum báðir saman.“ Pétur Hafsteinn Pálsson er framkvæmdastjóri og einn eigenda Vísis, sem ráðgert er að muni halda áfram sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins undir nýjum eigendum.
Hörður segir samtal því eiga sér stað um hina nýju stöðu á öllum póstum. „Þess vegna held ég að við verðum bara að treysta því að þetta gangi allt eftir. En auðvitað hefur maður séð alls konar í gegnum árin. Við þekkjum þessa sögu: Guggan er gul og verður gerð út frá Ísafirði. Það eru nokkrar svoleiðis.“
Enn hafa ekki margir félagsmenn Verkalýðsfélags Grindavíkur, sem starfa hjá Vísi, haft samband við félagið í tengslum við málið. „Nei, ekki mikið. Ég hef heyrt í einum eða tveimur en mér heyrist fólk ekkert vera sérstaklega áhyggjufullt, þannig. Það treystir því bara að þetta standi.“
Hörður nefnir kostina við staðsetningu Vísis í Grindavík. „Við erum náttúrulega rosalega vel staðsett; stutt í flugvöllinn og stutt í útflutning frá Þorlákshöfn. Plús það að væntanlega verður einhver uppbygging í fiskeldi á svæðinu líka. Þannig að þetta styður við staðsetninguna. Þess vegna erum við kannski ekkert voðalega óróleg. Svo er búið að tæknivæða mjög mikið og mikil þekking í starfsfólkinu í Grindavík.“