Forseti Íslands segir það ósatt með öllu að ekki hafi staðið til að bjóða Jóni Baldvini Hannibalssyni á hátíðarsamkomu í tilefni af þrjátíu ára stjórnmálasambandi Íslands við Eystrasaltslöndin.
Í forsíðufrétt Fréttablaðsins kom fram að íslensk stjórnvöld og Háskóli Íslands virtust hafa ákveðið að hundsa Jón Baldvin, fyrrverandi utanríkisráðherra, við skipulagningu samkomunnar, sem er haldin í tilefni af því að þrjátíu ár eru liðin frá því að Ísland tók upp stjórnmálasamband við Eystrasaltslöndin þrjú á ný. Samkoman er haldin nú í vikunni, en í Fréttablaðinu kom fram að samkvæmt Sighvati Björgvinssyni, fyrrum samflokksmanni Jóns Baldvins, hafi Jóni ekki verið boðið fyrr en sá fyrrnefndi gerði athugasemd vegna málsins. Eftir það hafi Jón Baldvin fengið boðskortið sitt í tölvupósti í fyrradag, en hann segist ekki geta þegið boðið með svo skömmum fyrrvara, enda sé hann búsettur á Spáni.
„Ég skil ekki af hverju menn eru svo lítilsigldir. Ég virðist vera í starfs- og framkomubanni,“ sagði Jón Baldvin vegna málsins.
Gagnrýnir frétt Fréttablaðsins
Nú hefur skrifstofa forseta Íslands sent frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að á boðslista viðburðarins séu, auk sendinefnda Eystrasaltsríkjanna, ráðherrar ríkistjórna Íslands á árunum 1988 til 1991, og 1991 til 1995, og fyrrverandi sendiherrar og ræðismenn frá þessum árum. „Fyrrverandi utanríkisráðherra fékk boð sama dag og aðrir boðsgestir eins og ætíð stóð til, með svipuðum fyrirvara og gengur og gerist um viðburði af þessu tagi,“ segir í yfirlýsingunni.
Fréttaflutningur Fréttablaðsins af málinu er einnig gagnrýndur í yfirlýsingunni, þar sem sagt er að auðvelt hefði verið fyrir miðilinn að sannreyna málið með „einu símtali.“
Þá kemur fram í yfirlýsingunni að þegar aldurfjórðungur var liðinn frá endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltslandanna, árið 2016, hafi forsetinn boðið Jóni Baldvini til viðburðar á Bessastöðum.
„Óhætt er að fullyrða að enginn annar Íslendingur en núverandi forseti (fyrir utan Jón sjálfan) hefur vakið eins oft og vel athygli á atbeina hans örlagaárið 1991 þegar íslensk stjórnvöld studdu dyggilega við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.