Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Fræðslu-fimmtudagur BL – Hvað eru ,,mild hybrid” bílar og eru þeir þess virði að kaupa þá?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fræðslu-fimmtudagar BL hefja nú göngu sína á Mannlífi en þá verða lesendur fræddir um flest milli himins og jarðar í bílamálum. 

Sífellt fleiri bílar eru nú knúnir vélum sem kallast á ensku ,,mild hybrid” og gætu útlagst á íslensku sem „vægir tvinnbílar“. Hefði þýðingin „tvinn“ ekki þegar haslað sér völl í íslensku máli hefði maður mögulega freistast til að þýða þetta frekar sem „mildan blending“ þó það ætti mögulega betur heima í hesthúsinu en bílskúrnum.

Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort þessi tækni muni vega þungt í þessum orkuskiptum eða hvort þetta verði neðanmálsgrein í bílablaðabunkanum hjá tannlækninum eftir tíu ár en hér rýnum við aðeins í hvað þetta er.

„Hybrid“ bílar sem blanda saman hefðbundnum sprengihreyflum, sem mögulega hljómar eins og eitthvað í eldflaug en á í raun við bensín- eða díselvélar, og rafmagnsmótor til að draga úr eldsneytiseyðslu og útblæstri eru okkur löngu orðnir okkur kunnir.

Fyrstu Hybrid bílarnir komu á markað þegar magabolir og Buffalo skór voru ennþá vinsæl fyrirbæri, eða árið 1997.

Í seinni tíð hefur svo bæst við það sem kallast „plug-in hybrid sem gerir það að verkum að bílarnir geta ekið lengra á rafmagninu einu saman en eru þó studdir af vélum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.

Nýjasta viðbótin í flóru „Hybrid“ bíla eru þessir „Mild Hybrid“ bílar en nú þegar hafa allnokkrir bílaframleiðendur hafið sölu á bílum sem nýta þessa tækni.

- Auglýsing -

Hvað eru þessir „Mild Hybrid“ bílar?

Tæknin að baki hugtakinu er tiltölulega ódýr og einföld en hún dregur, líkt og önnur tvinntækni, úr losun gróðurhúsalofttegunda og eldsneytiseyðslu miðað við bílvélar sem nota bara jarðefnaeldsneyti.

Almennt séð kemur lítill rafall í stað startara og alternators auk viðbótar lítillar lithium-ion rafhlöðu. Flestir „Mild Hybrid“ bílar notast við 48-volta rafkerfi, sem er hærra en í kerfum hefðbundinna bílvéla, til að knýja hluti bifreiðarinnar sem áður voru knúnir af vélinni sem skilar sér í aukinni skilvirkni.

- Auglýsing -

Hvernig virkar þetta svo?

Eins og nafnið gefur til kynna léttir „Mild Hybrid“ kerfið undir með vélinni með því að taka á sig hluta af raforkuþörfinni en ekki nóg til þess að bifreiðin geti ekið á raforkunni einni saman. Kerfin eru útfærð með mismunandi hætti milli bíltegunda en almennt séð léttir kerfið undir þegar bíllinn þarf að auka hraðann skyndilega og til að bæta virkni kerfa sem drepa á og kveikja á bifreiðinni sjálfkrafa. Þetta er klárlega kostur fyrir þá sem aka bílum með sjálfvirku stoppi sem eru akkúrat nógu lengi að kveikja aftur á sér til að ökumaðurinn fyrir aftan mann er byrjaður að flauta.

Kerfin geta líka sótt sér orku þegar hemlað er. Núningnum er þá breytt í raforku sem er svo hleypt á rafhlöðuna til að veita auka stuðning þegar þörf er á. Að meðaltali er áætlað að „Mild Hybrid“ bíll skili 15% meiri afköstum en sambærilegur, hefðbundinn bíll.

Eru allir „Mild Hybrid“ bílar eins?

Töluvert er nú orðið af þessum kerfum og þau eru mis mikið þróuð. Sum kerfin vinna með hraðastillinum þannig að bíllinn hægir á sér þegar hann nálgast beygjur og hringtorg og nýtir þá orkuna sem myndast þegar bíllinn hemlar og eins geta kerfin slökkt á vélinni og látið hann renna í allt að 40 sekúndur til að spara eldsneyti.

Hversu umhverfisvænir eru „Mild Hybrid“ bílar?

„Mild Hybrid“ bílarnir eru ekki eins sparneytnir og margir bílar sem teljast til Hybrid- eða Plug-in Hybrid-bíla. Þó það að sparneytnustu „Mild Hybrid“ bílarnir í flokki jepplinga blási út um 96 grömmum af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra líti mjög vel út í samanburði við hefðbundinn jeppling bliknar það í samanburði við marga Plug-in Hybrid bíla í sama flokki sem sumir blása út eins litlu og 29 grömmum á ekinn kílómetra.

Hvers vegna ættirðu þá að íhuga að kaupa vægan tvinnbíl?

Til að byrja með eru kerfin einfaldari í hönnun en aðrir Hybrid bílar þannig að í mörgum tilfellum reynast þeir ódýrari. Að sama skapi þarf ekki að huga að því að hlaða þá eins og Plug-in Hybrid-bíla svo þeir nýtist að fullu.

Ef Plug-in Hybrid reynist of dýr eða þú hefur ekki tök á að koma upp hleðslustöð er Mild Hybrid þó umhverfisvænni en hefðbundinn bíll með sprengihreyfli. Fyrir þá sem kjósa að halda sig við óbreytta upplifun í akstri eru þessir bílar eins og hefðbundnir bílar að þessu leyti auk þess að þeir geta fengist beinskiptir. Fyrir þá sem vilja fara alla leið er hægt að finna kassettutæki í bíla bæði á Amazon og eBay.

Hvernig eru aðrir Hybrid bílar í samanburði við þessa vægu?

Allir Hybrid bílar búa yfir hefðbundinni vél, rafmagnsmótor og rafhlöðu, þó stærðir og hleðslugeta geti verið mjög mismunandi. Auk Mild Hybrid eru þrjár aðrar tegundir sem allar virka á mismunandi vegu.

Parallel hybrid

Það liggur beinast við að kalla þessa tegund ,,samhliða tvinn” eða mögulega „sam-blendingur“ þar sem hjól bifreiðarinnar geta í senn verið knúin beint af vélinni, af rafmagnsmótornum einum eða með samvinnu beggja aflgjafa.

Þegar slegið er af eða hraðinn er undir um 20 kílómetra hraða knýr rafmótorinn einn bifreiðina sem gerir hana hugsanlega sparneytnari í innanbæjarakstri en er þá háð því að íslenskir ökumenn hafi þolinmæði til að aka á tuttugu þar sem hámarkshraði er 30 eða hreinlega vera fyrir þar sem hraðatakmarkanir eru hærri.

Sprengihreyfillinn tekur svo við þegar hraðinn eykst eða hröðunin eykst. Þegar dregið er úr hraðanum eða stigið á hemlana hleðst rafhlaðan en hleðslan dugar bílnum yfirleitt ekki nema um það bil frá Grafarvogi upp í Árbæ á góðum degi.

Range-extender hybrid

Þessi tegund er tiltölulega sjaldgæf og eru frábrugðin að því leyti að sprengihreyfillinn er aðallega notaður sem rafall til að framleiða rafmagn fyrir rafmótorinn sem einn knýr hjólin. Hafi ekki þegar fengist íslenskt heiti á þessa tegund er hér með stungið upp á heitinu „endingarblendingur“.

Plug-in hybrid

Plug-in hybrid eru mitt á milli Hybrid bíla og rafmagnsbíla. Eins og nafnið gefur til kynna er hægt að tengja þá við hleðslustöð til að hlaða rafhlöðurnar.

Þó þeir búi yfir hefðbundnum bílvélum eru rafhlöðurnar stærri en í Hybrid bílum og hafa meiri drægni þegar þeir eru keyrðir á rafmagninu einu saman sem dregur umtalsvert úr rekstrarkostnaði ef þeir eru hlaðnir reglulega. Sumar bíltegundir hafa jafnvel drægni upp undir hundrað kílómetra á rafmagninu einu saman en þó ber að hafa í huga að rafhlöður eru sannarlega þungar og ef tilfellið er að ekki er hægt að hlaða bílinn reglulega má leiða að því líkum að sparnaðurinn sé fyrir bí.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -