Frambjóðandi Samfylkingarinnar til þingkosninganna árið 2017 hefur verið ákærður fyrir líkamsárás gegn meistaranema við Háskóla Íslands á annan dag jóla í hittifyrra. Hinn meinti þolandi, Hefsan Fatehi frá Íran, lýsir ógnunum, morðhótunum og kynferðislegri áreitni af hendi Hlal Jarah, eiganda sýrlenska veitingastaðarins Mandi, og manna honum tengdum. Það gerir hún í samtali við Stundina.
Í Stundinni segir að fyrir liggi upptökur sem sýni Hlal slá Kefsan í höfuðið og sparka í hana.„Hann sparkaði í magann á mér og sló mig í höfuðið, ítrekað. Síðan henti hann mér út á götu,“ segir hún.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út ákæru á hendur Hlal í júní síðastliðnum og var málið þingfest í septembermánuði. Beðið er ákvörðunar dómara um hvenær aðalmeðferð geti hafist.
Sýrlendingurinn Hlal Jarah var á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir þingkosningarnar í október 2017. Hann var í 14. sæti á framboðslista flokksins í Reykjavík Suður og lagði hann áherslu á að Ísland tæki á móti mun fleira flóttafólki en gert hefur verið.
„Og ekki bara frá Sýrlandi heldur öllum sem eru hjálparþurfi. Öllum sem þurfa hjálp. Ef við getum hjálpað eigum við að hjálpa eins og við getum. Kannski sérstaklega núna frá Sýrlandi vegna ástandsins þar en það skiptir ekki máli. Ef fólk frá öðrum löndum þarfnast hjálpar, því þá ekki? Ísland er stórt land. Ég vil að Íslendingar verði ein milljón,“ sagði Hlal í samtali við Vísi og lagði áherslu á hversu gott honum þyki að hafa flutt til Íslands árið 2005 frá Damaskus í Sýrlandi:
„Hér hefur maður tækifæri til að gera eitthvað,ólíkt því sem er í landinu okkar. Þar geta sumir ekkert gert.“