Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-0.3 C
Reykjavik

Framkvæmdir framundan í Grindavík fyrir hálfan milljarð: „Taka mið af áhættumati hverju sinni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Undanfarið hafa stjórnvöld skoðað tillögur Grindavíkurnefndarinnar er lúta að viðgerðum í bænum vegna jarðhræringanna örlagaríku.

Mynd: Skjáskot af RÚV.

Formaður nefndarinnar – Árni Þór Sigurðsson – segir að fyrst verði gert við götur og að kostnaður muni hlaupa á hundruðum milljóna króna.

Grindavíkurnefndin svokallaða hefur umsjón með framkvæmdum og viðgerðum á mikilvægum innviðum í Grindavík; það er deginum ljósara að gífurlegar skemmdir hafa orðið í Grindavík síðan jarðhræringar hófust.

Grindavíkurvegur, eða það sem eftir er af honum.

Ásamt Árna Þór er nefndin skipuð þeim Guðnýju Sverrisdóttur, fyrrverandi sveitarstjóra Grýtubakkahrepps, og Gunnari Einarssyni, fyrrverandi bæjarstjóra Garðabæjar.

Gunnar Einarsson.
Guðný Sverrisdóttir.

Nefndin hefur í samstarfi við bæjaryfirvöld í Grindavík, ýmis ráðuneyti, lögreglu og fleiri kynnt stjórnvöldum tillögur sínar að viðgerðum.

Árni Þór Sigurðsson, Guðný Sverrisdóttir og Gunnar Einarsson tóku sæti í sérstakri framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur.

- Auglýsing -
Svandís Svavarsdóttir.
Mynd: Alþingi.

Lög um framkvæmdanefndina voru samþykkt á Alþingi og sagði Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra að „framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ“ sé „mikilvægt skref til þess að skerpa á ábyrgð og hlutverki stjórnvalda um málefni Grindavíkur. Þetta skref er til góðs fyrir Grindvíkinga. En ekki síður fyrir samfélagið allt, sem stendur með Grindvíkingum á þessum erfiðu tímum.“

Framkvæmdanefndin fer með stjórn, skipulag og framkvæmd tiltekinna verkefna sem henni er falin með lögum; samhæfingu aðgerða – tryggja skilvirka samvinnu við Grindavíkurbæ, önnur stjórnvöld og aðra hlutaðeigandi aðila og síðast en ekki síst að hafa heildaryfirsýn yfir málefni Grindavíkurbæjar.

- Auglýsing -

Framkvæmdanefndin er fjölskipað og sjálfstætt stjórnvald; hefur með höndum verkefni er snúa að úrlausnarefnum er tengjast jarðhræringunum við Grindavík. Munu helstu verkefni nefndarinnar snúa að samfélagsþjónustu með því að starfrækja þjónustuteymi á sviði velferðar- og skólaþjónustu; þá mun nefndin hafa yfirumsjón með framkvæmdum og viðgerðum á mikilvægum innviðum í Grindavík.

Verkefnið hefur verið undirbúið í samstarfi við bæjarstjórn Grindavíkur – sem óskaði eftir samstarfi um tilhögun og stjórnarfyrirkomulag verkefna við óvenjulegar aðstæður vegna jarðhræringa í Grindavík.

Mannlíf ræddi við Árna Þór vegna aðgerðaáætlunar Grindavíkurnefndarinnar. Í máli hans kemur fram að áætlunin hefur verið samþykkt en að framkvæmdir séu þó ekki hafnar:

„Undirbúningur er hafinn. Sérstakt framkvæmdateymi hefur verið sett á laggirnar til að halda utan um verkefnið.“

Árni Þór segir aðspurður að „áætlaður kostnaður vegna þeirra innviðaframkvæmda sem til stendur að fara í í þessum áfanga er um 450 milljónir króna.“

Hann bendir á að „inni í þeirri tölu er meðal annars kostnaður við lagfæringar á sjóvarnargarði og einnig kaup á girðingum til að girða af svæði sem talin eru hættuleg.“

Árni Þór er spurður að því hver sé megintilgangur þessara framkvæmda. Hann segir að markmiðið og tilgangurinn sé að „auka öryggi í bænum og þær [framkvæmdirnar, innskot blm] eru einnig forsendur þess að unnt sé að draga úr eða aflétta lokunum með öruggum hætti. Þá munu framkvæmdir taka mið af áhættumati hverju sinni.“

Árni Þór á ekki „von á því að málið dragist lengi; við höfum gert ágætlega grein fyrir þessu; ég hef ekki orðið var við annað en að það sé góður skilningur á því að það sé mikilvægt að nýta tímann núna; nýta sumarið til framkvæmda.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -