Biðin eftir fyrstu tölum úr Reykjavík var löng, en til stóð að tilkynna fyrstu tölur á miðnætti. Það gekk þó ekki eftir og voru fyrstu tölur lesnar upp í beinni útsendingu eftir klukkan hálf tvö í nótt.
Samkvæmt þessu er núverandi borgarstjórnarmeirihluti fallinn og munu oddvitar flokkanna þurfa að leita nýrra leiða við myndun meirihluta. Einar Þorsteinsson og Framsóknarflokkurinn verða sennilega í lykilstöðu í slíkum viðræðum, enda flokkurinn ótvíræður sigurvegari kosninganna í borginni með sína fjóra menn.
Píratar og Sósíalistaflokkurinn hafa neitað að starfa með Sjálfstæðisflokki, þannig að eini mögulegi þriggja flokka meirihlutinn samanstendur af Pírötum, Samfylkingu og Framsókn. Eins er vert að hafa í huga að Sósíalistar hafa tekið fyrir samstarf með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn.
Það má gera ráð fyrir því að oddvitar þeirra flokka sem náðu fulltrúum inn í borgarstjórn muni hefjast handa við að þreifa hver á öðrum og kanna grundvöllinn fyrir samstarfi. Þar má vænta þess að Framsóknarflokkurinn verði vinsæll, enda búinn að lýsa því yfir að hann sé tilbúinn að vinna til hægri eða vinstri.