Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Fréttamálið: Ofbeldisalda skellur á unglingana okkar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Undanfarið ár hefur hver fréttin rekið aðra þar sem sagt er frá grófu ofbeldi unglinga og ungmenna á höfuðborgarsvæðinu og má með sanni kalla það bylgju. Barnamálaráðherra sagði nýlega að þörf væri á átaki til að sporna gegn þessari þróun. Því er verkefnastjóri á neyðarmóttöku Landspítalans sammála, en þar mæla menn aukna hörku í líkamsárásum þessa aldurshóps.

Hnífsstungur og kynferðisbrot

Fréttir hafa borist undanfarið af auknu ofbeldi meðal unglinga og ungmenna. Sést það helst meðal annars á meira ofbeldi í miðbæ Reykjavíkur en stunguárásum hefur fjölgað sem og alvarleg kynferðisbrot svo fátt eitt sé nefnt. Sem nýlegt dæmi má nefna að í ágústmánuði réðust nokkrir unglingspiltar á 16 ára gamlan dreng og stungu hann í bakið og var talið mikið mildi að drengurinn lifði árásina af, enda blæddi mikið. Gerendurnir voru 17 og 18 ára. Þá var meint kynferðisbrot í Fjölbrautaskóla Suðurlands, þar sem báðir aðilar voru undir lögaldri, mikið í umræðunni fyrir stuttu. Nýjasta málið er frá miðjum september en þá var ráðist á 18 ára dreng með þroskaskerðingu í undirgöngum við Sprengisand í Reykjavík og reynt að hafa af honum hjól en hann var á leið á íþróttaæfingu. Í kjölfarið var hann stunginn þrisvar sinnum. Pilturinn var fluttur á gjörgæslu þar sem hann undirgekkst aðgerð. Gerendurnir voru þrír unglingspiltar.

Vettvangur glæpsins.
Ljósmynd: Rúv

Í ársskýrslu Stígamóta fyrir síðasta ár, kemur fram að mikla athygli hafi vakið hversu margir ofbeldismanna, sem leitað hafi til samtakanna, hafi verið undir lögaldri er þeir frömdu brotin. Þar kemur fram að af þeim 700 brotamönnum sem safnað var upplýsingum um á síðasta ári, hafi 107 þeirra eða 16.7 prósent, verið á aldrinum 14-17 ára. Ennfremur kemur fram í skýrslunni að 66.4 prósent brotaþolanna sem leitaði til Stígamóta árið 2021 hafi verið yngri en átján ára er þau voru fyrst beitt kynferðisofbeldi.

Kynferðismálum fjölgar á ný eftir Covid

Hulda Hrönn Björgúlfsdóttir, verkefnastjóri á neyðarmóttöku Landsspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis, sagði í viðtali við Mannlíf að aukin harka sé að færast í líkamsárásarmál, þá sérstaklega hjá ungu fólki en áður en hún varð verkefnastjóri vann hún á bráðamóttökunni í 15 ár.

- Auglýsing -
Bráðamóttaka Landspítalans. Ljósmynd: Landspítalinn

 „Fólk hefur áhyggjur af því, árásirnar eru orðnar grófari, verið er að nota hnífa og fleiri vopn og hópárásir þar sem ekkert er gefið eftir. Þetta er ekki kýlingar eins og þekktist í gamladaga. Fólk einhvernveginn svífst einskis og við vitum ekki alveg hvað veldur en við höldum að þetta tengist internetinu. Þar er allt orðið svo opið,” sagði Hulda.
Sagði hún einnig að kynferðisafbrotum meðal ungs fólks sé að aukast aftur eftir nokkra lægð síðustu tvö árin. „Við tengjum þetta við Covid, því að flest kynferðisbrotamál sem koma til okkar tengjast skemmtanalífinu. Það eru engar samgöngutakmarkanir lengur og fólk er að fara út á djammið á skemmtistöðunum og í partý en kynferðisbrotin eiga sér ekki stað á skemmtistöðunum heldur í heimahúsum eftir djammið að mestu. Þetta er ekki meira en fyrir Covid en er að fara upp í svipaðan fjölda og fyrir Covid.“ Aðpurt segir Hulda að kynferðisbrotin séu þó ekki mælanlega grófari en áður. „Þetta er mjög svipað og hefur verið þó það komi grófar árásir inn á milli, en það hefur kannski ekki verið mikið í umræðunni. Ég á þá við árásir þar sem áverkar eru sýnilegir en tek fram að allar árásir eru auðvitað hryllilegar.“

Hulda segir einnig í samtali við Mannlíf að grunur sé um að kynferðisbrotin komi oft vegna klámnotkunar ungmenna. Samkvæmt skýrslu Menntavísindastofnunar um börn og netmiðla sem kom út á árinu, hafa tæplega þrír af hverjum tíu nemendum í 8. bekk horft á klám á netinu en hlutfallið hækkar svo með árunum. Rúmur helmingur nemenda í 10. bekk hefur horft á klám og 70 prósent framhaldsskólanema.

Dæmi um niðurstöðu könnunarinnar

„Strákar virðast fá sínar hugmyndir um það hvað kynlíf er eða haldað að það sé, ég veit það ekki, úr klámi. Það virðist vera ofsalega mikil harka í þessu, þó að það séu til allskonar hugmyndir um kynlíf þá ertu kannski ekki í því á fyrsta stefnumóti.“ En hvað er hægt að gera til að sporna við þessari þróun? „Það er hellings vinna í gangi núna, það eru landssamráðsfundir og það á að fara að reyna að búa til einhvern farveg og auka fræðslu í skólum. Það er það sem mér finnst að þurfi að gera.“

- Auglýsing -
Annað dæmi úr könnuninni

Átak nauðsynlegt

Eitthvað þarf að gera því varla vill þjóðin lifa í samfélagi þar sem börnin þeirra eiga það í hættu að verða fyrir hnífsstungum og hópárásum þegar þau fara út á meðal jafnaldra sinna. En eru ráðamenn með puttann á púlsinum? Í viðtali í Bítið á Bylgjunni í lok ágúst, sagði barnamálaráðherrann Ásmundur Einar Daðason að sérstakt átak þurfi til svo kveða megi niður þá ofbeldisbylgju sem skollið hefur yfir meðal íslenskra unglinga og ungmenna. Sagði hann það standa til að koma á fót stýrihópi sem muni skoða ofbeldismál barna og leiðir til að sigrast á þeim vanda.

Ásmundur Einar Daðason

„Ég átti fund nýlega með ríkislögreglustjóra til að ræða þessi mál. Ég hef líka verið að ræða þetta við lögregluna, við dómsmálaráðherra. Ég held að við þurfum að fara í aukið átak þegar kemur að þessum málum. Við þurfum að fara inn í skólana, við þurfum að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir,“ sagði Ásmundur í viðtalinu og hélt áfram: „Ég verð að viðurkenna að ég er ekki með svörin við því hvað við getum gert og hvernig. Þess vegna höfum við verði í samtali um það. Við þurfum að setja vinnu af stað og erum að undirbúa að setja í gang einhvers konar stýrihóp sem fer ofan í þessi mál og skoðar það sem lítur að ofbeldismálum barna, þar sem þau eru gerendur og þar af leiðandi þolendur líka.“

Þannig að já, ráðamenn virðast vera með puttann á púlsinum en hvort lausn þeirra á þessum vanda muni duga til verður tíminn einn að leiða í ljós.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -