Þróunarsamvinnustofnun Íslands eða ÞSSÍ starfaði frá 1981 til 2015 þegar hún var lögð niður og verkefni hennar sett undir Utanríkisráðuneytið. Meðal verkefna sem stofnunin stóð fyrir var þróunarstarf í Namibíu. Auk þess að útvega mannskap til hafrannsókna átti stofnunin þátt í að koma sjómannaskóla á laggirnar í afríkuríkinu en hóf hann starfsemi árið 1994. Í skýrslu sem gerð var fyrir Utanríkisráðuneytið segir að skólinn starfi þar enn og vegni vel. Fyrrverandi kennari við skólann er á öðru máli.
Árið 2014 kom út skýrsla um þróunarsamvinnu Íslands sem gerð var fyrir Utanríkisráðuneytið. Þar var farið yfir þá þróunarsamvinnu sem Ísland hefur stundað undanfarna áratugi í hinum ýmsu löndum. Varðandi slíka samvinnu í Namibíu segir orðrétt í skýrslunni: Nýútkomin úttekt á samvinnu ÞSSÍ við stjórnvöld í Namibíu 1990 – 2010 sýnir fram á merkilegan árangur. Í henni kemur fram hvernig íslensk aðstoð í fiskigeiranum, sem átti sér stað á 20 ára tímabili, átti ríkan þátt í að byggja upp fiskiðnað í landinu sem nú stendur undir 4% af þjóðarframleiðslu og 9% á tímabili á árum áður. Þessi árangur er í úttektinni kallaður „raunverulegt iðnvæðingarkraftaverk. „Í landi þar sem voru engar atvinnuveiðar á fiski og almenningur var ekki vanur sjó og fiskveiðar voru nýstárlegar þá er þetta ekki lítill árangur,” segir í skýrslunni. „Á mjög skömmum tíma varð sjávarútvegur í Namibíu ein af kjarnaiðngreinum í landinu, lagði til töluverðan hluta af þjóðartekjum og veitti fjölda fólks ný atvinnutækifæri.”
Þá er einnig minnst á ágóða íslenskra fyrirtækja á þróunarsamvinnunni í Namibíu í skýrslunni: Íslensk fyrirtæki hafa að einhverju marki tekið þátt í – og notið góðs af – íslenskri þróunarsamvinnu frá fyrstu tíð. Þannig ruddi stuðningur á vegum ÞSSÍ við sjávarútveg í Namibíu brautina fyrir íslensk fyrirtæki á því sviði. Eftir tíu ára starfsemi ÞSSÍ í landinu, um aldamótin, bjuggu þar milli 60 og 70 Íslendingar á vegum ýmissa aðila.
Stefnulaust þróunarstarf
Sigurður Jónsson var kennari í Sjómannaskóla Namibíu og hefur allt aðra sögu að segja en fram kemur í téðri skýrslu.
„Þetta var svona lausbeislað þróunarstarf til að byrja með, án stefnu,“ sagði Sigurður Jónsson í samtali við Mannlíf en hann kenndi í skólanum á sínum tíma. Hann hélt áfram: „Það var engin stefna og hinir og þessir fengnir til að kenna á veiðarfæri og hinir og þessir fengnir til að gera hitt og þetta. En svo er ráðinn af skólanum Víðir Sigurðsson og hann er fenginn til þess að taka þetta svolítið fastari tökum. Og hann fær mig með sér og fyrir voru þar menn frá Noregi og Alfreð Steinar Rafnsson, kennari við skólann. Og þá var hugmyndin að gera þetta að almennilegum skóla. Og það hóf Víðir að gera, má segja.“
Sagði Sigurður að Víðir hafi hins vegar aldrei fengið þau tök sem voru nauðsynleg og að „kerfi“ Þróunarsamvinnustofnunarinnar hafi ætíð verið viðloðandi skólann. „Síðan er sendur maður þarna niður eftir sem að fór yfir reksturinn á þessu og það kemur í ljós að reksturinn er ekki til fyrirmyndar. Og þetta blandaðist allt saman sko, Namibíumenn sem vildu hafa puttana í þessu því það komu inn í þetta peningar, bæði frá Íslandi og Noregi og seinna Spáni og þar sem eru peningar saman komnir á einn stað, þyrpast saman menn sem vilja komast í þá. Og upp frá því var farið að tala um ýmsa hluti, eins og það að það þyrfti að leggja niður mikla meira langtímaplan og Íslendingarnir þyrftu að vera óháðir einhverjum pólitískum duttlungum. En pólitískir duttlungar urðu ofan á.“
Sigurður sagði að fyrir vikið hefði skólinn aldrei orðið neitt. Sagði hann ennfremur að skýrsla um skólann sem gerð var eftir heimsókn starfsmanns Þróunnarsamvinnustofnunarinnar, hafi verið starfsmönnum hans mjög mikil vonbrigði því það virtist sem skýrslan hafi verið gerð fyrir þá sem pöntuðu hana. „Sighvatur Björgvinsson var framkvæmdarstjóri stofnunarinnar og Björn Ingi Hrafnsson var stjórnarformaður. Þannig að þetta var mjög pólitískt,“ sagði Sigurður og hélt áfram: „Og pólitíkin gat aldrei séð það að til þess að skilja vel við þennan skóla, hefðum við þurft að hafa eitthvað langtíma markmið og standa við það.“ Aðspurður hvort hann teldi að skýrsluhöfundi hafi verið ætlað að skila ákveðinni niðurstöðu um skólann svaraði Sigurður: „Ja sko, ég man eftir einni spurningu sem var svona; „Telur þú að skólinn hafi verið til góðs eða ills fyrir Namibíumenn?“. Og hverju svarar þú svona spurningu? Geturðu sagt nei og rökstutt það eða verður þú að segja já og allir verða glaðir? Þetta er ekki já og nei spurning. Það verður að skýra þetta mál aðeins öðruvísi. Og út af því að það var eiginlega ekki hægt að segja nei og færa rök fyrir því þá varð maður að segja já. Og þegar þeir eru búnir að leggja fyrir þig svona spurningar og það sýnir að þetta sé voða flott allt saman, þá geta þeir bara sagt „Ok! Nú erum við bara hættir og farnir.“, en skilja svo við þetta í lausu lofti.“
Hægt er að lesa greinina í heild sinni í nýjasta blaði Mannlífs.