Frú Vigdís Finnbogadóttir fetaði ótroðnar slóðir með því að vera kosin fyrsti kvenforseti heimsins. Er það almannaálit að henni hafi tekist afar vel til sem forseti Íslands en hún lagði til dæmis mikla áherslu á skóg- og landrækt á forsetatíð sinni. Þá lagði hún mikla áherslu á að vera ópólitískur forseti og tókst henni það oftast nær.
Vigdísi, sem er þekkt fyrir prúðmennsku og kurteisi í hvarvetna tókst þó að reita frændur okkar Dani og Svía til reiði er hún hélt ræðu á opnun norrænu menningarkynningarinnar Scandinavia Today í Washington árið 1982. Í ræðunni sagði hún einfaldlega sannleikann en svo virðist sem dönsku og sænsku sendinefndirnar hafi ekki viljað horfast í augu við eigin nýlendustefnu.
DV sagði frá málinu á sínum tíma:
Politiken skrifar í gær:
Danir og Svíar óánægðir með ræðu forseta Íslands
Frá Þóri Guðmundssyni fréttaritara DV í Kaupmannahöfn. Að sögn danska blaðsins Politiken voru dönsku og sænsku sendinefndirnar óánægðar með ræöu Vigdísar Finnbogadóttur forseta Islands við opnun norrænu menningarkynningarinnar, Scandinavia Today, í Washington á fimmtudag. Það sem vakti óánægjuna var að Vigdís skyldi lýsa yfir að Norðurlöndin samanstæðu af 5 ríkjum, en 8 löndum. Þau þrjú lönd sem talin voru umfram ríkjafjölda voru Færeyjar, Grænland og Álandseyjar. Politiken segir að sendinefndirnar ætli að reyna að sýna Vigdísi Finnbogadóttur fram á að í framtíðinni beri henni að halda sig við þann texta sem utanríkisráðuneyti Norðurlandanna hafi eftir langar viðræður komið sér saman um. Fréttaritari blaðsins kvartar einnig undan því að setningarathöfnin hafi verið hundleiðinleg. „Fyrst á dagskránni var tónlistarverk sem Þorkell Sigurbjörnsson hafði samið sérstaklega fyrir þetta tilefni og flutt var af hinu norræna tríói. Ef það var fyrirætlun skipuleggjendanna að byrja þetta skandinaviska menningaráhlaup á Bandaríkin með „anti-klimax” þá tókst það afburða vel,” skrifar fréttaritari Politiken. Hann heldur síöan áfram: „Á sviðinu bak við ræöumennina sátu 50 íslenskir söngvarar. Hendur þeirra hvíldu þunglega á hnjánum og á andlitum þeirra var djúpfrosinn svipur sem fyrst losnaði um þegar andlitin brustu út í söng sem bar nafnið Stuttir eru morgnar.” Eini ljósi punkturinn sem blaðamaður Politiken kom auga á við opnunina í Kennedy Center var sýning hins konunglega danska ballets.