Emilía Hugrún Lárusdóttir og skólahljómsveit Fjölbrautaskóla Suðurlands sigruðu Söngkeppni framhaldsskólana á Húsavík í gærkvöldi. Emilía söng lag Eddu James, I´d rather go blind og gerði það með þessum líka stórgóða árangri.

Mynd: Rúv skjáskot
Í öðru sæti hafnaði Rakel Björgvins úr Menntaskólanum í tónlist og Þorsteinn Helgi úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja lenti í því þriðja.
Á heimasíðu FSu má sjá texta um sigurinn þar sem pistlahöfundurinn óskar sigurvegurunum til lukku með árangurinn.
„FSu-arinn og Þorlákshafnarbúinn Emilía Hugrún Lárusdóttir gerði góða ferð norður á Húsavík ásamt skólahljómsveit FSu og sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna í gærkvöldi 3. apríl. Glæsilegur túlkandi og hæfileikaríkur fulltrúi skólans okkar. Hún flutti lagið I’d Rather Go Blind af mikilli innlifun og krafti.“