Í dagbók lögreglu segir að rúmlega áttatíu mál hafi verið skráð hjá lögreglu í nótt og tengdust þau að megninu til færð og ölvun, það er; föstum ökutækjum, fólki sem hefur dottið í hálkunni, fullum og köldum ekið heim. Þá voru einnig höfð afskipti af manni í miðborginni þar sem hann stóð á miðri akbraut og kastaði af sér þvagi. Maðurinn var kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt.
Í Hafnarfirði var tilkynnt um eld í þaki á fjölbýlishúsi. Íbúum var gert að rýma húsið. Það tók slökkviliðið rúma klukkustund að ráða niðurlögum eldsins og gátu íbúar snúið aftur heim. Skemmdir eru taldar minniháttar.
Maður grunaður um líkamsárás var handtekinn á veitingahúsi í Hafnarfirði. Var hann vistaður í fangageymslu lögreglu.