Föstudagur 25. október, 2024
1.5 C
Reykjavik

Lífsreynslusaga Mannlífs – Fullkominn dagur fyrir sambandsslit: „Einmitt, já, hún er sæt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„En hver á að fá múmínbollana?“

Henni datt ekki neitt annað í hug til þess að segja, á þessum heita og sólríka júlídegi. Þau sátu hvort á sínum sólbekknum með birtuna í andlitið og sólgleraugu á nefbroddunum. Í loftinu var dauf angan af rósarunna og fuglarnir kepptust um að yfirgnæfa hver annan með skrúðugum laglínum. Tveir loðnir kettir læddust um í djúpgrænu grasinu í kring í leit að skugga.

Fullkominn dagur fyrir sambandsslit.

Hún hafði einhvern tíma lesið innsenda grein í tímariti, um konu sem upplifði algjöran viðsnúning á lífi sínu eftir ein áramótin. Kona sú vildi meina að þetta gamlárskvöld hefði verið upphafið að endalokunum á hennar fyrra lífi.

Hún og aðrir veislugestir höfðu ákveðið að standa öll upp á stólum rétt fyrir miðnætti og þegar klukkan sló tólf stukku þau öll samtímis niður. Þetta átti að vera táknrænt, þau væru að stökkva inn í nýja árið, algjörlega óhrædd við óvissu komandi tíma.

Þessari konu brást hinsvegar eitthvað bogalistin. Þetta uppátæki fór ekki betur en svo að hún datt af stólnum á miðnætti og brotlenti á hörðu gólfinu með springandi flugelda í eyrunum. Það leið ekki langur tími eftir þetta gamlárskvöld þar til konan sú var skilin og allt líf hennar í frjálsu falli.

- Auglýsing -

Sagan fékk þó farsælan endi, eins og flestar lífsreynslusögur tímaritanna.

Konan vildi meina að þetta harkalega fall inn í nýja árið hefði verið afar táknrænt og sett af stað breytingar og atburðarás sem hana hefði stuttu áður aldrei getað órað fyrir. Hún mælti með því að ef fólk vildi dramatískar breytingar á lífi sínu ætti það að prófa að stökkva, nú eða detta hreinlega, inn í nýtt ár að kvöldi 31. desember.

Nú var þessi saga, sem hún hafði lesið mörgum árum fyrr, eins og greypt inn í huga hennar. Hún hafði jú byrjað þetta árið með óvenjulegum hætti. Í fyrsta sinn hafði hún verið í öðru landi um áramót. Hún hafði farið án hans til frænku sinnar í Svíþjóð til þess að þreyta inntökupróf í háskóla þar í landi.

- Auglýsing -

Inntökuprófið var í byrjun janúar, en ódýrasta fargjaldið út var á gamlársdag. Rétt fyrir miðnætti hafði hún fengið óvenjulega tilfinningu, eins og eitthvað væri í aðsigi. Allt hafði verið öðruvísi. Önnur, ókunnug lykt í loftinu. Hún gat hvorki komið anganinni né tilfinningunni í orð. Hún hafði hugsað með sér að sennilega stafaði hvort tveggja af sprengjuleti Svíanna, sem var Íslendingnum auðvitað framandi. Á miðnætti hafði hún skálað í freyðivíni og óvart brotið kristalsglasið. Um leið og það gerðist fannst henni hægjast á öllu. Eins og hún væri að fylgjast með atburðarásinni utan frá.

Eftir áramótin hafði hún fengið flensu, farið veik í inntökuprófið og gengið í samræmi við það.

Þegar hún hafði komið heim höfðu þau spjallað saman tvö og hann látið hana frjálslega vita af því að það hefði verið reynt við hann í áramótapartíinu heima á Íslandi. Hann hefði nú samt ekki tekið undir það.

„Já er það? Sýndu mér hana.“

Hann hlýddi.

Hún hafði sítt dökkt hár og fallegt bros.

„Einmitt, já. Hún er sæt,“ hafði hún sagt annars hugar. Hún hafði næstum samglaðst honum yfir viðreynslunni.

Nokkrum dögum síðar hafði snjóboltinn farið að rúlla. Það var eins og kveikt hefði verið á henni í fyrsta sinn í langan tíma. Hún hafði fengið neikvætt svar frá skólanum, en það skipti eiginlega ekki neinu máli. Hún hafði verið lifandi. Spennt. Hátt uppi. Hún hafði stefnt hraðbyri á vegg, en hann hafði verið óumflýjanlegur.

Upphafið hafði verið vinnustaðapartí nokkrum dögum eftir áramót. Einhvern veginn hafði hún endað alltof seint um kvöld, eftir fleiri drykki en hún kaus að viðurkenna, lokuð inni á myrkvuðu baðherbergi.

Með henni.

Og þrátt fyrir að hún vissi að það væri rangt, þá höfðu allar taugar í líkama hennar verið á öndverðum meiði. Hátt uppi, í einhverjum hvirfilbyl spennu, óvissu og losta, höfðu varir þeirra mæst. Með skynfærin þanin að þolmörkum höfðu þær deilt kossum í tímaleysi. Þráin var sektarkenndinni yfirsterkari.

Henni fannst sem hún myndi bráðna ofan í niðurfallið. Sykursætt Paris Hilton ilmvatn lá í loftinu og hún hafði ekki gert sér grein fyrir því þá, en þetta ilmvatn átti alltaf eftir að snúa öllu innra með henni á hvolf í hvert sinn sem hún myndi finna lyktina í framtíðinni. Eftir þetta varð ekkert eins.

Það var eins og hún vaknaði loks úr einhvers konar transi á þessum júlídegi á sólbekknum. Þau sátu hlið við hlið en hún sá að þau höfðu myndað gjá á milli sín í öllum jarðskjálftunum mánuðina á undan. Og það var ástæðulaust fyrir þau að reyna að klóra í bakkann. Hún trúði því núna, á þessu augnabliki, að það skipti máli hvernig fólk færi inn í nýtt ár. Hún ætlaði að muna að stökkva inn í það ef hún vildi umturna lífi sínu aftur eins og hún var í þann mund að gera.

„Við skiptum þeim bara á milli okkar.“

Það vottaði fyrir brosi á andliti hans. Þessi nálgun hennar á þetta stóra augnablik virtist ekki koma honum neitt sérstaklega á óvart.

„Eigum við að panta pizzu?“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -