Gabríel Douane Boama, strauk úr gæsluvarðhaldi í lok apríl. Í kjölfar þessa máls spruttu upp spurningar hvar við stöndum sem samfélag þegar kemur að rasisma á Íslandi.
Snorri Sturluson, skrifar pistil inn á Karlmennskan. Á síðu Karlmennskunnar segir að markmiðið verkefnisins sé að varpa ljósi á íhaldssamar ráðandi karlmennskuhugmyndir, hreyfa við þeim, skapa jákvæðri karlmennsku frekari sess og styðja í leiðinni við jafnrétti í íslensku samfélagi.
„Það er ekki rasismi á Íslandi“
Í kjölfar þessa máls segir Snorri að hann hafi rekið sig á eftirfarandi fullyrðingu í sínu nærumhverfi og lesið á vefmiðlum:
„Það er ekki rasismi á Íslandi, þið eruð að ímynda ykkur þetta.“
Og segir ennfremur að á baki þessari fullyrðingu býr ekki bara þekkingarleysi heldur líka afneitun og gaslýsing á veruleika hörundsdökks fólks í okkar samfélagi.
Í pistlinum sínum lýsir hann því að: „hann hafi oftar en einu sinni og oftar en tvisvar heyrt svart fólk lýsa því að það sé bara eitt verra en yfirlýstir rasistar en það er fólk sem veit ekki, eða viðurkennir ekki, að það hafi kynþáttafordóma, hegðar sér samt á fordómafullan hátt og neitar svo að viðurkenna það þegar því er bent á það.
Fólk sem segir „það er ekki rasismi á Íslandi“ er oft fólk sem veit ekki að það býr yfir kynþáttafordómum, eða neitar að horfast í augu við það. Það þarf ekki annað en að opna kommentakerfin til að sjá að það er nóg af rasisma á Íslandi.“
Viðbrögð samfélagsins eru afneitun
Snorri bendir einnig á að: „þegar þolendur rasisma segjast verða fyrir fordómum og viðbrögð samfélagsins eru afneitun, er það gaslýsing á upplifun þolandans og meðvirkni með gerandanum. Samfélagið kýs frekar að afneita upplifun þolandans heldur en að viðurkenna að um kynþáttafordóma sé að ræða því ef við viðurkennum samfélagslegan rasisma þá erum við í leiðinni að viðurkenna eigin sekt.
Sem hvítt fólk ölumst við upp við að vera að meðaltali ríkari, valdameiri, betur menntuð og með lengri lífslíkur en samferðafólk sem eru dekkri á hörund. Þetta eru allt staðreyndir sem hægt er að sýna fram á á tölulegan hátt. Við erum alin upp við lúmska yfirburðarhyggju og við erum flest haldin henni í einhverju mæli en gerum okkur fæst grein fyrir því. Enda er oft erfitt að sjá eigin forréttindi og yfirburðastöðu.
Í hvert skipti sem við gerum lítið úr eða afneitum upplifun og reynslu hörundsdökks fólks af kynþáttafordómum gaslýsum við þau, brjótum traust þeirra og aukum bilið á milli okkar.
Hlustum á og trúum upplifun og reynslu minnihlutahópa. Það er fyrsta skrefið í átt til jafnara og fordómalausara samfélags.“
HÉR er hægt að lesa pistilinn í heild sinni.