Menn sem gjörþekkja til flugreksturs á Íslandi fullyrtu í gær, áður en Donald Trump tók þá afdrifaríku ákvörðun að banna allt flug frá Evrópu til Bandaríkjanna í heilan mánuð, að rekstur Icelandair hafi ekki verið þyngri á öldinni. Ástæðan sé, til viðbótar við Boeing-málið, efnahagsþrengingar og samdráttur sem kórónaveiran hefur magnað.
Nokkrir heimildarmenn Mannlífs sögðu jafnframt í gær að til stæði að segja á bilinu 150 til 180 flugmönnum en um 500 flugmenn hafa verið að störfum hjá flugfélaginu. Aðrar deildir færu ekki varhluta af niðurskurðinum.
Icelandair boðaði í gær til starfsmannafundar klukkan 13 í dag.
Ljóst má vera að ákvörðun Donalds Trump er síst til þess fallin að lækka þessar tölur, enda hafði Icelandair gert ráð fyrir að 490 flugferðir yrðu farnar til Bandaríkjanna á tímabilinu. Það eru 27% allra fyrirhugaðra flugferða félagsins. Áður hafði félagið tilkynnt um að 80 flugferðir myndu verða felldar niður.
Bogi Nils Bogason, forstjóri, gaf fyrr í vikunni til kynna að uppsagnir væri á döfinni. Nauðsynlegt væri að taka ákvarðanir sem væru „erfiðar og sársaukafullar“. Síðan þá hefur staðan versnað til mikilla muna.
Sá orðrómur hefur verið hávær síðustu daga, hjá þeim sem til þekkja, að Icelandair muni neyðast til að leita á náðir ríkisins. Í raun má segja að það hafi verið altalað hjá þeim sem til flugreksturs þekkja. Fjórir ótengdir heimildarmenn sem Mannlíf ræddi við í gær sögðust hafa heyrt að slík ákvörðun væri tímaspursmál, jafnvel dagaspursmál. Þeir töldu afar sennilegt að forsvarsmenn Icelandair Group hefðu þegar sett sig í samband við ríkisstjórn eða flugmálayfirvöld vegna stöðunnar.
Sterk staða lausafjár
Með félaginu vinnur að lausafjárstaðan er sterk. Í tilkynningu frá Icelandair Group í morgun kom fram að það ætti 39 milljarða króna í lausu fé. Á móti kemur að Icelandair mun ekki njóta þess í sama mæli og sum önnur flugfélög að olíuverð hefur hríðfallið. Fram kom í fréttum árið 2018 að 54% af eldsneytiskaupum Icelandair Group hafi það árið verið varin til 13-18 mánaða. Í þessu felst að félagið hefur gert framvirka samninga um innkaup á olíu. Þetta er gert til að verja sig fyrir verðhækkunum. Hin hliðin á þeim peningi er að félagið nýtur ekki verðlækkana.
Sérfræðingar á flugmarkaði áætla að vegna kórónaveirunnar sé eftirspurn eftir flugi með Icelandair á bilinu 50 til 70% minni en í eðlilegu árferði. Varfærnasta áætlun sem Mannlíf heyrði var 30%. Þegar þessar tölur voru gefnar upp lágu tíðindi næturinnar ekki fyrir.
Samhliða þessum samdrætti búast heimildamenn Mannlífs við því að Icelandair muni minnka flota sinn, en félagið er með um 30 vélar í rekstri. Einn heimildamaður sagðist í gær hafa heyrt að til stæði að fækka vélunum um sjö.
Hlutabréfaverð hríðfellur
Hlutabréfaverð í Icelandair hefur samhliða þessum tíðindum hríðfallið síðustu daga. Verðið á hlut var á bilinu 8 til 9 krónur um miðjan febrúar. Í gær var verðið komið niður í rétt rúmar fimm krónur en þegar þetta er skrifað er verðið 3,89 krónur á hlut. Verðið lækkaði um 22% við opnun viðskipta í morgun.
Þess má geta að í júní í fyrra stóð hluturinn í um 11 krónum en í apríl 2016 var hann í 39 krónum á hlut.
Vart þarf að taka fram að Icelandair er ekki eina flugfélagið sem er í miklum vandræðum vegna kórónaveirunnar. Flest flugfélög glíma við mikinn samdrátt og enginn hefur enn gert sér grein fyrir hver áhrifin gætu orðið á önnur íslensk ferðaþjónustufyrirtæki.
Bjarni Benediktsson sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að ákvörðun Donald Trump, um að banna allt flug til landsins frá Schengen-svæðinu í heilan mánuð, væri gríðarlegt reiðarslag fyrir Ísland.