Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, furðar sig á því að dómari í máli Mohamad Kourani, sé ekki búinn að ákveða að maðurinn verði komið undir læknishendur en hann dvelur nú á Litla-Hrauni. Samkvæmt mati geðlæknis er Sýrlendingurinn með ýmsa geðræna kvilla.
Mohamad Kourani, Sýrlendingur sem kom til landsins árið 2018, dvelur nú á Litla-Hrauni og bíður dóms en hann er meðal annars ákærður fyrir stunguárásina sem átti sér stað í OK Market á Hlíðarenda, í mars. Samkvæmt mati Kristins Tómassonar geðlæknis, er Mohamad sakhæfur en þjáist af ýmsum geðrænum vandamálum. Hann sé siðblindur, með aðsóknarpersónuleikaröskun og áfallastreituröskun.
Mannlíf spurði Guðmund Inga Þóroddsson, formann Afstöðu um málið, en hann svaraði skriflega.
Hvað finnst þér um þá aðstöðu sem skapast hefur vegna vistar Mohamad Kourani á Litla-Hrauni?
Guðmundur: „Því miður eru fá úrræði í fangelsiskerfinu til að sinna einstaklingum sem eiga við veikindi að stríða. Þeir eru ýmist vistaðir á öryggisklefa eða á s.k. öryggisgangi á Litla-Hrauni. Slíkt er óviðunandi að mati Afstöðu.“
Hafa fangar áhyggjur af stöðu sinni innan Litla-Hrauns eftir komu hans og ef svo er, af hverju?
Guðmundur: „Nei.“
Hefur þú verið í einhverjum samskiptum við Mohamad Kourani eða lögmann hans og hvers eðlis eru þau samskipti?
Guðmundur: „Nei engin samskipti en okkar vettvangsteymi mun líta á hann þegar og ef við fáum grænt ljós á það eða ef hann leitast eftir því. Lögmaður hans þekkir númerið okkar ef við getum komið að liði.“
Hvað telur þú að þurfi að gera til þess að afplánun Mohamad Kourani gangi sem allra best fyrir sig?
Guðmundur: „Að fundið verði viðunandi úrræði, enda verða veikir einstaklingar enn veikari ef þeim er ekki sinnt af heilbrigðismenntuðu fólki. Ég reyndar furða mig á að dómari málsins hafi ekki nú þegar ákveðið að einstaklingurinn sé undir læknishöndum, en ekki vistaður í fangelsi.“