- Auglýsing -
Björn Birgisson heldur því fram að Samtök atvinnulífsins haf loforð frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur um lagasetningu á verkföll Eflingar.
Samfélagsrýnirinn glöggi, Björn Birgisson skrifaði færslu í gær þar sem hann tjáði sig um mögulegt verkbann SA á Eflingarfólk. Sagðist hann aldrei hafa ímyndað sér að sjá þetta verða að veruleika. Þá segir hann að forustumenn Samtaka atvinnulífsins „hljóta að vera með loforð frá ríkisstjórninni um lagasetningu á verkföll Eflingar og þá þetta verkbann í leiðinni.“
Færsluna í heild sinni má lesa hér:
„Verkbann á 21 þúsund manns!
Ótímabundið og hefst á sama tíma hjá öllu þessu fólki!
Hélt satt að segja að ég myndi aldrei sjá svona hugmynd viðraða og þaðan af síður verða að veruleika, en allt stefnir í að svo verði!
Velti fyrir mér hvernig forustumönnum Samtaka atvinnulífsins detti í hug að lama eigin rekstur með svona aðgerð sem sögð er eiga að vera ótímabundin.
Skýringin á því getur aðeins verið ein.
Þeir hljóta að vera með loforð frá ríkisstjórninni um lagasetningu á verkföll Eflingar og þá þetta verkbann í leiðinni.
Gerist það verður skipaður gerðardómur til að koma með Salómonsúrskurð um lausn deilunnar.“