Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Hissa á orðum Bjarna um blöndun menningarheima: „Yfirleitt tækifæri til að fræðast og aðlagast“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lögfræðingurinn Baldur Karl Magnússon furðar sig á orðum Bjarna Benediktssonar sem sagði í hlaðvarpsviðtali á dögunum að hér á landi mætti ekki verða of mikil blöndun menningarheima. Sjálfur á Baldur eiginkonu frá Filippseyjum og með henni tvö börn.

„Nú hefur forsætisráðherra varað við of mikilli blöndun menningarheima sem honum finnst hætta á hér á Íslandi. Mig langar að deila persónulegri reynslu minni af svona blöndun. Ég hitti konuna mína árið 2012 í Filippseyjum, en við erum einmitt af sitt hvorum menningarheimnum.“ Þannig hefst færsla Baldurs Karls en hann segir þau hjónin hafi ákveðið að búa á Íslandi vegna þess hversu frjálslynt landið væri.

„Við tókum þá ákvörðun árið 2015 að búa á Íslandi frekar en í hennar heimalandi. Við gerðum það vitandi að Ísland var frjálslynt og opið land þar sem við var pláss fyrir öll þau sem þar vildu vera og gerast þátttakendur í samfélaginu. Síðan höfum við gift okkur, eignast tvö dásamleg börn, fjárfest í heimili og alla tíð verið í fullri vinnu og lagt okkar af mörkum til samfélagsins, efnahagslega, félagslega og menningarlega. Það að við séum með ólíkan menningarbakgrunn hefur skemmtileg áhrif á heimilið. Við skírðum börnin okkar í þjóðkirkjunni, þó við mætum stundum alveg í messu í þeirri kaþólsku. Við horfum fyrst á filippeyskar kvöldfréttir og svo á þær íslensku. Ef við getum ekki verið sammála um hvað er í matinn elda ég bara eitthvað íslenskt og hún eitthvað filippeyskt.“

Baldur segist ekki vita hvað beri að varast við blöndun menningarheima.

„Ég veit ekki alveg hvað ber að varast við blöndun menningarheima. Menning er almennt í eðli sínu jákvæð. Kannski hefur forsætisráðherra áhyggjur af fólki sem er með einhvern tiltekinn menningarlegan uppruna sem er ólíkur þeim sem hann þekkir. Ég vil nú kannski bara gjalda almennan varhug við allri slíkri hugmyndafræði. Í þeim örfáu tilfellum þar sem menning raunverulega rekst á þá er það frekar yfirleitt tækifæri til að fræðast og aðlagast. Það að ætla að reyna að ákveða hvaða uppruni fólks sé æskilegur í samfélaginu hefur almennt ekki gefið góða raun fyrir neitt þjóðríki sem hefur lagt í þá vegferð.“

Að lokum segir Baldur Karl að fjölskylda hans sé ríkari fyrir að eiga konu hans að.

„Ég veit að mín fjölskylda er ríkari fyrir að eiga að hana Merji og ég er nokkuð viss um að fjölskyldan hennar líti á mig sem góða viðbót við þeirra fjölskyldu. Ég vona að við Íslendingar höldum áfram að vera jafn opin fyrir því að hér býr alls konar fólk, með alls konar uppruna, og hingað kemur alls konar fólk með alls konar uppruna. Það á ekki að útiloka það úr samfélaginu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -