Formaður Félags íslenskra lýtalækna telur að það þurfi að fylla upp í lagaeyður varðandi fegrunarmeðferðir.
Undanfarna daga hafa fjölmiðlar á Íslandi fjallað um fegrunaraðgerðir sem eru gerðar á landinu af ófaglærðu fólki. Hafa lýtalæknar og snyrtifræðingar viðrað áhyggjur sínar af stöðu mála og hefur verið talað um vilta vestrið í því samhengi.
„Það hafa komið upp slæm tilfelli hér á Íslandi þar sem fólk hefur fengið fylliefni í slagæð þar sem að við höfum þurft að leysa upp fylliefni með svokölluðu leysiefni og vandamálið er að þetta leysiefni er lyf og einungis læknar sem að mega skrifa það út,“ sagði Hannes Sigurjónsson, formaður Félags íslenskra lýtalækna, í samtali við RÚV um málið og læknar hafi lengi talað fyrir skýrum reglum um fegrunaraðgerðir.
„Við höfum viðrað þessar áhyggjur bæði í fjölmiðlum og svo hefur félag húðlækna verið með okkur í að koma þessum skilaboðum áleiðis til yfirvalda en við höfum ekki fengið nein formleg svör um að það sé reglugerð, lagabreyting eða lagafrumvarp í smíðum sem að verndar fólk eða setur reglur í kringum hverjir mega sprauta fylliefnum.“