„Það er engin nýjung að fólk vilji greiða peninga fyrir að svala kynhvöt sinni, örva hana og bragðbæta. En innreið ódulinna viðskipta á íslenska kynlífsmarkaðnum hefur vakið heiftarleg viðbrögð og mikla umræðu sem ekki er aðeins háð í fjölmiðlum, heldur nánast á hverju heimili. Eitt virðist þó alla jafna gleymast – að án kaupenda væri enginn markaður. Hvaðan koma þessar hvatir og hvernig á að umgangast þær?“
Í júlímánuði árið 2001, fyrir rétt rúmum tuttugu árum, birtist grein í Mannlífi. Greinin var skrifuð af Kristjáni B. Jónassyni og fjallaði um klám- og kynlífsiðnað á Íslandi, sem og nektardans. Orðin hér að ofan eru inngangur greinarinnar.
Hún hófst svo á eftirfarandi hátt:
„Það er afar rólegt svona á miðvikudagskvöldi og fáir í gryfjunni við pallinn. Túristarnir eru duglegastir og rúlla dollaraseðlunum upp í vöndul og veifa þeim framan við nefið á dökkhærðri stelpu sem kynnt var á svið sem „Elvíra“. Það er töluvert meira við hana en píuna á undan, „Gínu“, sem gerði lítið meira en að dilla sér og hélt kannski fullákveðin fyrir það heilagasta þegar hún brá sér úr brókinni, það var einhvern veginn hvorki siðlátt né æsandi.
En Elvíra hefur eitthvað við sig, eitthvað í áttina að ákafa sem smitar þessa örfáu sem hafa tekið sér stöðu á gægjubásunum með okurdýran bjórinn og þennan sauðslega, ef ekki beinlínis sorglega svip sem virðist alltaf koma á karlmenn þegar þeir verða æstir innan um sér ókunna karlmenn.
Öllum er eilítið illt í maganum og það versnar þegar Elvíra skellir flötum lófa á rassinn á sér svo smellur í. Meira að segja sólbrúnu leðurjakkamennirnir sem svelgja í sig bjór, hlæja að einhverjum bröndurum og tala í símana sína á milli atriða hætta að skima eirðarlaust út í salinn smástund. Eitthvað í ætt við áhuga virðist vera að vakna. En svo fer Elvíra líka niður af pallinum og þá er það búið; tími kominn til að lesa SMS-skilaboðin sín.“
Blaðamaður heldur áfram að lýsa aðstæðum inni á nektardansstaðnum. Hann sýnir okkur jakkafatamenn sem sitja saman með hóp af „syfjulegum náttfatapartístelpum“ dansandi ofan í þeim.
Í greininni er talað um að það sé ákveðinn lýðræðislegur bragur á viðskiptum sem þessum. Að þarna sé ekki farið í manngreinarálit. Hver sem þú ert, karl eða kona, getir þú komið inn á þennan stað og „notið þess að horfa á kvenskrokka og fengið áhuga, daður og einhvers konar blíðuvott fyrir peninga“.
„Það skiptir engu máli hvað þessar náttfatapartístelpur gera við peninginn sem þær hirða upp af dansgólfinu. Það skiptir heldur engu máli hvort þær eru listamenn eða hórur. Það sem skiptir máli er að hvort sem þær dansa fyrir einn eða marga, hvort sem þær bara dansa eða ganga alla leið eru þær á „markaði“,“ segir í greininni.
„Allt hold er hold“
Út frá þessum orðum fer blaðamaður að skoða þessi „viðskipti“ alfarið út frá markaðsfræðilegu sjónarhorni. Framboði, eftirspurn og svo framvegis.
Í því samhengi líkir hann saman hjónabandi og kynlífsiðnaði á eftirfarandi hátt:
„Kynhvöt fólks er meðfædd hvöt sem allir hafa. Til að svala þessari hvöt „seljum“ við okkur á hjónabands- eða paramarkaðinum, komumst að snöggsoðnu samkomulagi við hinn aðilann (eða hina aðilana) um snöggsoðin kynni eða hættum þessu táknræna vafstri og látum peningana tala.
Séð frá þessum sjónarhóli er engin siðferðisleg sérstaða fólgin í því að kaupa sér kynferðislega svölun. Munurinn á hjónabandi og fimm mínútna „blóvdjobbi“ í myrkri einkadansklefans felst aðeins í greiðslumiðlinum og umfangi viðskiptanna. Allt hold er hold, hverju nafni sem það nefnist.“
Máli sínu til stuðnings vísar blaðamaðurinn í lokaritgerð hagfræðingsins Sólmundar Ara Björnssonar frá hagfræðideild Háskóla Íslands, sem þá var nýleg og bar heitið „Rannsókn á kynlífs- og hjónabandsmörkuðum“.
Blaðamaður segir að hæglega megi skoða andóf íslenskra femínista gegn nektarstöðum sem „tilraun til að koma höggi á samkeppnisaðila“. Hann segir sömuleiðis að öllum á þessum markaði beri saman um að pör séu álitlegur viðskiptahópur og að þau séu í auknum mæli farin að róa frekar á mið kynlífsmarkaða nektarstaðanna, heldur en að bæta fjöri í leiki sína með því að taka fólk á löpp á hefðbundnum skemmtistöðum. „Vændis- og nektarmarkaðurinn er betur skilgreindur, þarfir ljósari og framboð markvissara,“ segir í greininni.
McDonald’s og vændi
Þegar greinin var skrifuð var enn þá bannað að stunda kynlífsvinnu sér til viðurværis. Um það segir blaðamaður að það hljóti að vera hægt að berjast fyrir lögleiðingu vændis sem heiðvirðrar starfsgreinar og líkir því við baráttuna fyrir því að fá frjálsar útvarpsstöðvar, bjór og McDonald’s hingað til lands.
McDonald’s já, sú var tíðin.
Í framhaldinu er áhugavert að lesa að blaðamaður fer að tala um lögleiðingu vændis út frá svipuðum röksemdarfærslum og gjarnan eru notaðar til að tala um heimatilbúið klám og svokallaðar „Only Fans“-síður í dag.
„Hvort sem horft er á vændi út frá markaðssjónarmiðum eða út frá siðferðislegum sjónarmiðum (þar sem dregið er í efa að vændi sé leið til að öðlast ánægjulegt og farsælt líf) er núverandi löggjöf óviðunandi. Á báðum vígstöðvum verður í framtíðinni barist fyrir að fá henni breytt (sú vinna er reyndar þegar hafin), þótt hvatirnar fyrir áhuganum eigi sér ólíkar rætur.“
Vel að merkja segir fólk sem vinnur í kynlífsiðnaði í gegnum Only Fans í dag, að hluti af því sem gengur upp í því reikningsdæmi sé að það stjórni ferðinni sjálft. Þessir einstaklingar framleiða, leikstýra og rukka fyrir eigið efni. Vissulega er ákveðið gjald sem rennur til miðilsins, en þar er enginn sem stjórnar því efni sem viðkomandi aðilar láta frá sér.
Líkir nektardansstöðum við Disneyland og kaupendum við börn
Nú kemur að vægast sagt athyglisverðum skrifum blaðamanns, hvar hann líkir nektardansstöðum við Disneyland þar sem komið er inn í „fantasíuveröld strippsins“. Hann segir að sá sem gangi inn í þessa fantasíuveröld verði barn á ný – „barn með kynhvöt“.
Hann segir að fyrir utan þessa veröld gildi það sama og fyrir utan Disneyland – þú þurfir að hlýða pabba og mömmu, þvo þér um hendurnar, fara í skólann og læra heima. Fyrir innan blasi allt annar veruleiki við:
„Fyrir innan þarf maður ekkert að gera nema borga til að láta sér líða vel með Mikka mús og Andrési. Nema hvað, þegar maður verður fullorðinn heitir Mikki „Maika“ og Andrés „Andrea“ – báðar frá Eistlandi.“
Það þarf sennilega ekki að hafa mörg orð um það hvað er athugavert við þessa fordómafullu orðræðu – vonandi ekki, nú 20 árum síðar. Hún ætti að dæma sig sjálf.
Það er samt ef til vill athyglisvert að blaðamaður hafi talað með þessum hætti upp úr aldamótum – 20 ár eru kannski ekkert svo voðalega langur tími. Eða hvað?
Út frá þessu fer blaðamaðurinn svo að velta fyrir sér siðferði.
„Er þetta gott mál eða slæmt? Er hægt að stunda vændi af því að maður hefur „valið það“ eða er vændi alltaf nauð?“
„ISO-staðlar hórerísins“
Síðar í greininni segir:
„Kynlífsmarkaðurinn býr til, heldur við og breiðir út fantasíur sem enda sem ISO-staðlar hórerísins. Fantasíur eru alls ekki einkamál, þvert á móti, þær eru samfélagsleg afurð, menningarlegt fyrirbæri sem myndar uppistöðuna í vörulista hvatanna þegar fjársterkir aðilar fara á stúfana með gullkortin og seðlabúntin til að sjá dillurnar í sér raungerast fyrir töfraáhrif peninganna.
[…] það gleymist líka allt of oft að þegar nauð, kúgun og þvingun kemur til sögunnar hættir kynlíf að vera kynlíf, en verður ofbeldi,“ segir blaðamaður og talar þar með svipuðum hætti og flestir gera í dag. Hins vegar skiptist fólk enn í fylkingar þegar kemur að því að meta hvort kynlífsvinna sé alltaf nauðung eða misnotkun að einhverju leyti – eða hvort þetta sé góð og gild starfsgrein þar sem sé fullkomlega mögulegt að vera við stjórn og líða vel.
Kynlíf svölun á grundvallarþörf
Blaðamaður endar greinina á því að velta kynlífsmarkaðnum fyrir sér, bæði út frá siðferðislegu sjónarmiði og svo því sjónarmiði að kynlíf sé grunnþörf. Hann vill meina að á þessum tímapunkti sé kynlífsmarkaðurinn staðreynd og ekki dugi að reyna að banna hann. Þessi iðnaður muni alltaf finna sér leið.
„Þegar talað er um að „berjast verði gegn kynlífsmarkaðnum“ er það í raun fráleit tugga. Kynlífsmarkaðurinn er einfaldlega staðreynd, hann er grundvöllur umræðu dagsins. Við höfum grundvallarþörf, kynþörfina, en birtingarmyndir hennar í markaðssamfélaginu eru vörur – við verðum að fást við þann raunveruleika. Margt bendir hins vegar til þess að markaðnum sé ekki treystandi til að hlúa að þessari grundvallarþörf því að „varan“ er oftar en ekki fólk og eins og áður sagði – þar sem hagfræðinni sleppir tekur siðferðið við: Það er ekki hægt að réttlæta í stóru og smáu iðnað sem dregur jafn marga niður í skítinn.
Eins og er virðast viðbrögð fólks við markaðsvæðingunni einkennast af ráðleysi. Líklegast er þó fyrsta skrefið til að átta sig á hlutunum að viðurkenna stöðu markaðarins í stað þess að sporna gegn því sem þegar er orðið.
Síðan má byrja að ræða um hvort kynlífi sé best borgið á markaði eða hvort það hafi gildi í sjálfu sér – handan vörunnar. Grunnhugsun lýðræðisins er að mannleg verðmæti séu óháð kaupum og sölu – þau séu ekki föl. Það mætti hefja kynlífið upp á þann stall en þá þyrfti líka að losa um hömlur bælingarinnar og tepruskaparins sem er ekki síðri dragbítur á allan skilning á kynlífinu. Því kynlíf er ekki vara og enn síður lúxusvara. Það er svölun á grundvallarþörf,“ segir blaðamaður að lokum.
Við upprifjun þessarar greinar má glögglega sjá að ákveðnir vinklar umræðunnar hafa breyst töluvert á þessum 20 árum sem liðin eru síðan hún kom út. Enn meira hefur orðræðan í kringum málefnið breyst, en margt sem fram kemur í greininni yrði seint látið fljúga í fjölmiðlum í dag.
Það er hins vegar líka athyglisvert hvaða hlutar umræðunnar virðast ekki hafa breyst mikið og hvaða atriði er enn karpað um.