Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Fyrirmynd Þorbjargarinnar í Verbúðinni og kaup Samherja: „Guðbjörgin verður áfram gul“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þessi baksýnisspegill birtist þann 14. febrúar síðastliðinn og er nú endurbirtur.

 

Guggan verður áfram gul og gerð út frá Ísafirði.

Þessu lýstu Samherjamenn yfir, með Þorstein Má Baldvinsson fremstan í flokki, þegar þeir keyptu útgerðarfélagið Hrönn hf. á Ísafirði árið 1997. Hrönn átti og rak skipið Guðbjörgina ÍS og gerði hana út frá Ísafirði.

Í lokaþættinum í sjónvarpsþáttaseríunni Verbúðinni í gær er að finna spegilmynd þessara atburða. Í þáttunum heitir fyrirtækið sem er selt HG Sæfang og skipið Þorbjörgin. Atburðarásin er nokkurn veginn sú sama, þrátt fyrir breytingar á persónum og leikendum. Sá sem talinn er endurspegla Þorstein Má Baldvinsson heitir í þáttunum Gunnar Már og fer með hina fleygu setningu: „Þorbjörgin verður ennþá gul og hún verður gerð út frá Vestfjörðum.“

Þorsteinn Már Baldvinsson

Kaupverðið leynilegt

Í DV þann 10. janúar árið 1997 má finna frétt um söluna og vangaveltur um söluverðið með fyrirsögninni „Guðbjörgin breyttist í gull og sjö hluthafar fá um tvo milljarða“.

Við höfum haft mikla ánægju af þessu starfi og hvað það hefur gengið vel í gegnum árin. Við sáum hins vegar að við þurftum að breyta um, við áttum ekki nógan kvóta til að tryggja rekstur Guðbjargarinnar og þess vegna var gripið til þessa ráðs,“ segir Marías Þ. Guðmundsson, einn af stærstu hluthöfunum í Hrönn hf. sem nú hefur sameinast Samherja. Kaup Samherja á Akureyri á útgerðarfélaginu Hrönn hf. Ísafirði og á togaranum Guðbjörginni ÍS hafa vakið blendin viðbrögð á Vestfjörðum þótt fullyrt sé bæði af eigendum Hrannar og Samherja að Guðbjörgin verði áfram gerð út fráÍsafirði. Í meðfylgjandi grafi er reynt að slá verði á Hrönn og eignir hennar við yfirtöku Samherja og mun láta nærri aðseld hafi verið verðmæti í kvóta og öðrum eignum fyrir 1,9 milljarða króna. Það má því segja að Guggan hafi breyst í gull í einu vetfangi. „Guðbjörgin verður áfram á Ísafirði undir sínum lit og sínum einkennum og það er okkur mikils virði,“ segir Marías.

- Auglýsing -

Hvorki Marías og hinir eigendur Hrannar, né eigendur Samherja, vildu gefa upp kaupverð Hrannar hf. Samkvæmt Maríusi áttu engir peningar að fara á milli manna við kaupin. Hann sagði í viðtalinu við DV að Hrönnin ásamt öllum gögnum og gæðum fyrirtækisins yrði metin inn í Samherja. Strax og gengið yrði frá kaupunum með lögformlegum hætti myndu svo eigendur Hrannar hf. fá hlutabréf í Samherja út frá eignarhluta þeirra.

Því hafði verið velt upp að Hrönn hf. hefði verið hlutfallslega metin inn í Samherja upp á 6 prósent. Það innihéldi kvóta Guðbjargarinnar, Guðbjörgina sjálfa sem var þá metin á 1,5 milljarða króna, þar af með milljarð í skuldir. Til viðbótar kæmu svo fasteignir og lausafé.

„Þetta er fráleit tala,“ sagði Marías þegar hann ræddi við DV.

- Auglýsing -

Eftirfarandi segir í sömu frétt í DV:

Eigendur Hrannar voru systkinin Ásgeir, Margrét, Ragnheiður, Hörður og Guðbjartur Guðbjartsbörn, Marías Þ. Guðmundsson og Guðmundur Guðmundsson, bróðir Maríasar. Enginn eigendanna hefur viljað láta uppi um eignarhlut hvers og eins, en eftir því sem DV kemst næst mun Ásgeir Guðbjartsson hafa verið stærsti hluthafinn með um 30% eignarhlut, Margrét systir hans komið næst með um 25%, þá Marías Þ. Guðmundsson með 20% og Guðmundur bróðir hans með um 17%. Láta mun nærri að samanlagður eignarhlutur þeirra Ragnheiðar, Harðar og Guðbjarts Guðbjartssonar sé um 8% og skiptist hann jafnt milli þeirra mun láta nærri að þau hafi eignast rúmlega 50 milljóna króna hlut í Samherja.

Þau hlutabréf sem stærsti hluthafinn, Ásgeir Guðbjartsson, mun fá í hendur verða líklega með stærri tölu á, eða um 570 milljónir króna. Hlutur Margrétar verður um 475 milljónir króna, Maríasar um 380 milljónir króna og Guðmundar ríflega 320 milljónir. Eftir að búið verður að ganga lögformlega frá þessum kaupum, sem að sögn Maríasar verður trúlega í lok febrúar eða í byrjun mars, er ætlunin að setja hlutafélagið Samherja á almennan hlutafjármarkað. Samherji er nú talinn vera virði um 10 milljarða króna, en því hefur verið spáð að gengi bréfanna á markaði verið mjög hátt.

Guðbjörgin. Mynd: aflafréttir.is

„Bæjarbúar voru sviknir“

Í greiningu Gunnars Smára Egilssonar, innsta kopps í búri Sósíalistaflokksins og fyrrum fjölmiðlamanns, á þessum viðskiptum Samherja við kaupin á Hrönn hf. frá árinu 2019 segir:

Samherji gaf ekki aðeins út ný hlutabréf í tengslum við þessi kaup. Frændurnir gáfu líka út loforð að halda starfsemi Hrannar gangandi á Ísafirði og að Guggan myndi landa þar öllum sínum afla. Og sambærileg loforð voru gefin gagnvart Grindvíkingum, um stórfellda atvinnuuppbyggingu. Þessi loforð voru fullkomlega innistæðulaus, frændurnir sviku þau svo fljótt að engar líkur eru á að þeir hafi nokkru sinni ætlað að standa við þau. Með þessum loforðum, sem á Ísafirði voru studd karaktervottorði frá bæjarstjóranum, Kristjáni Þór Júlíussyni, féllust fyrri eigendur á að Samherji tæki yfir reksturinn. Hugmyndin var að reksturinn yrði óbreyttur, að eigendur gætu varið eign sína og bæjarbúar haldið vinnu sinni. Eigendurnir voru hólpnir og hafa örugglega hlegið alla leið í bankann. En bæjarbúar voru sviknir. Guggan landaði aldrei á Ísafirði, kvótinn var fluttur á önnur skip Samherja og Guggan var seld úr landi 1999, til fyrirtækis Samherja í Þýskalandi.

Hagnaður Samherja af þessum snúningi á eigendum Fiskimjöls og lýsis og Hrannar, og á bæjarbúum í Grindavík og á Ísafirði, nam um 18.378 m.kr. miðað við núvirði kvótans. Þá reiknum við aðrar eignir í þessum viðskiptum upp á núll; rekstur, hús, skip og tæki. Ef við reiknum með 3,5% ávöxtun á þessa fjárhæð frá árinu 1997 þá ætti hún að hafa ávaxtast og orðið að um 40,5 milljörðum króna í dag. Það jafngildir um 36,5% af auð Samherja í dag. 

Þegar Samherji keypti útgerðarfélagið Hrönn hf. inn í fyrirtækið sagði forstjóri Samherja, Þorsteinn Már Baldvinsson, í viðtali við Ríkisútvarpið að Ísfirðingar þyrftu engar áhyggjur að hafa af viðskiptunum. Breytingin myndi ekki draga úr umsvifum í bænum. Loforðin hans þrjú, að Guðbjörgin yrði áfram gul, að hún yrði áfram ÍS og að hún yrði áfram gerð út frá Ísafirði, voru að endingu öll svikin. Reyndar var það svo að Guðbjörgin landaði aldrei aftur á Ísafirði og Samherji flutti kvótann á önnur skip í sinni eigu. „Guggan“ var svo seld til Þýskalands einungis tveimur árum síðar.

Gunnar Smári Egilsson
Mynd. Skjáskot/RÚV

„Ég bara sagði þetta“

„Mér brá þegar ég sá aflatölur fyrir Guðbjörgina á síðasta ári. Tölurnar voru eins og þarna væri trilla á ferðinni í samanburði við hina frystitogarana. Þeir hafa notað skipið á skrapi hingað og þangað. Þetta var aflahæsta skip landsins ár eftir ár. Við vorum sárir þegar Guðbjörgin fór frá Ísafirði á sínum tíma, en þetta verða hinsvegar að teljast eðlilegir viðskiptahættir eins og kaupin gerast á eyrinni,“ sagði Sigurður R. Ólafsson, formaður Sjómannafélags Ísfirðinga í viðtali við Morgunblaðið, þegar fregnir bárust af sölu Guðbjargarinnar til Þýskalands árið 1999.

Ekki eru mörg ár síðan í ljós kom að það var rétt sem fyrri eigendur Hrannar höfðu alltaf haldið fram, að loforðið um Guðbjörgina og útgerð frá Ísafirði hefði verið skriflegt. Það var fyrrum alþingismaðurinn Kristinn H. Gunnarsson sem birti yfirlýsinguna á heimasíðu sinni árið 2018. Hún er undirrituð af Þorsteini Má fyrir hönd Samherja og Ásgeiri Guðbjartssyni fyrir hönd Hrannar hf. Yfirlýsingin er dagsett þann 7. janúar árið 1997 og í henni segir:

„Fréttatilkynning. Hluthafar Samherja h.f. Akureyri og Hrannar h.h. Ísafirði hafa undirritað samkomulag um að sameina þessi sjávarútvegsfyrirtæki. Samkomulag er um að útgerð Guðbjargar ÍS verði óbreytt frá því sem verið hefur á Ísafirði.“

Afrit af skriflegu yfirlýsingunni.

Þegar Samherji seldi Guðbjörgina sagði Þorsteinn Már yfirlýsinguna hafa verið mistök, en að ekki hefði verið um „bindandi loforð“ að ræða.

„Aðstæður í sjávarútvegi eru það breytilegar að það verður að viðurkennast. Sjávarútvegurinn er eins og sjórinn, síbreytilegur,“ sagði hann í viðtali við Morgunblaðið. Þessu svipar mjög til þess sem Gunnar Már segir í lokaþætti Verbúðarinnar við sama tilefni.

Aðspurður hvort hann hafi verið að taka tillit til byggðasjónarmiða með yfirlýsingunni sagði Þorsteinn Már:

„Ég bara sagði þetta og það hafði ekkert með pólitík eða bæjarstjórn að gera.“

„Eins og í glæpaseríum á borð við Narcos ætti næsta sería af Verbúðinni að fylgja Samherjamönnum,“ sagði Gunnar Smári Egilsson í pistli sem hann ritaði á Facebooksíðu sína í tilefni af lokum sjónvarpsþáttaraðarinnar Verbúðarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -