Davíð Goði Þorvarðsson og Fjóla Sigurðardóttir vilja 30 milljónir króna frá áhrifavaldinum Eddu Falak en þau unnu saman að hlaðvarpsþættinum Eigin Konur sem naut mikilli vinsælda fyrir nokkrum árum. Davíð Goði og Fjóla segja Eddu hafa svikið sig. Þá hafa þau gefið í skyn að Edda hafi beitt þau andlegu ofbeldi. „Þær tekjur sem komu inn á samstarfstíma aðila voru samtals um 2,5 milljónir, eins og gögn bera glögglega með sér. Edda hefur frá upphafi verið tilbúin að greiða þeim stærstan hluta allrar þeirrar fjárhæðar en boð hennar hafa að mestu mætt þögninni og síðar auknum kröfum,“ sagði Sigrún Jóhannsdóttir, lögmaður Eddu Falak, við Vísi um málið. Samkvæmt Sigrúnu hefur Edda reynt að leita sátta í málinu en hún hafi ekki mætt miklum vilja í þeim efnum. Edda viðurkenndi í viðtali við DV árið 2022 að hún skuldaði Fjólu og Davíð Goða pening en hélt því fram að þau hefðu ekki verið í samband við sig til að klára það mál. Fyrsta fyrirtaka í málinu verður í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudaginn 9. janúar.