Bókin Besti vinur aðal kom út nú haust og í henni fjallar blaðamaðurinn og frambjóðandi fyrir Flokk fólksins Björn Þorláksson um spillingu á Íslandi. Björn segir að í bókinni afhjúpi hann óeðlileg inngrip valdhafa og spilltra afla á löngum ferli sínum í blaðamennsku.
Ein saga í bókinni sem hefur vakið mikla athygli meðal lesenda er sagan af því þegar Björn tók við starfi fréttastjóra á Degi-Tímanum fyrir aldamót á Akureyri. Hann fékk þá símtal frá Samherja þar sem hann var boðaður á fund Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja.
Björn og Stefán Jón Hafstein, þáverandi ritstjóri Dags-Tímans, voru sammála um að Björn ætti að mæta á fundinn, slíkt gæti verið mögulegt fréttaefni en ritari Þorsteins vildi ekki gefa upp hvert fundarefnið væri. Þegar á fundinn var komið byrjaði Þorsteinn að yfirheyra Björn og spurði meðal annars um hvar faðir Björns stæði í pólitík. „Kýs pabbi þinn Sjálfstæðisflokkinn?“ hefur Björn eftir forstjóranum sem hélt áfram að henda fram spurningum. Björn segir að hann hafi ekki svarað neinu en áfram héldu spurningarnar. Björn nefnir dæmi þess að Þorsteinn hafi vitað að Björn væri ný hættur í löngu sambandi og spurði út í afstöðu barnsmóður hans í stjórnmálum. „Er hún ekki ættuð úr Skagafirði?“ á Þorsteinn að hafa spurt.
„Þessi valdamesti útgerðarmógúll hins bjarta norðurs hafði fyrir fundinn aflað sér töluverðra bakgrunnsupplýsinga um mig sem einstakling. Njósnir lágu augljóslega að baki. Mér fannst það ekki þægilegt,“ skrifar Björn
„Eftir nokkrar snarpar mínútur stóð ég upp og kvaddi þetta rugl.“