Þriðjudagur 28. janúar, 2025
-1.2 C
Reykjavik

Fyrsta sjóferð Unnars Gísla misheppnaðist illa: „Það er bara reykur út um allt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Júníus Meyvant er tónlistarmaður sem flestir þekkja. Færri vita að hann heitir Unnar Gísli Sigurmundsson og er borinn og barnfæddur í Vestmannaeyjum. Hann á að baki stuttan en magnaðan sjómannsferil á togaranum Breka VE. Seinna lærði hann á gítar og hefur nú náð frægð víða um heim. Frægðin stígur honum ekki til höfuðs. Hann býr ásamt eiginkonu og börnum í Vestmannaeyjum og unir glaður við sitt. Rokkstjarna á kvöldin en venjulegur fjölskyldumaður á daginn. Hann er alinn upp við trú. Afi hans var sjálfur Einar í Betel. Tónlist hans á sér rætur þar. Unnar Gísli segir sögu sína í viðtali við Sjóarann.

Þegar Unnar Gísli var 16 ára fór hann á sjó með jafnaldra sínum. Þeir voru ráðnir sem hálfdrættingar á Breka VE sem var mikið aflaskip. Fyrsta ferðin byrjaði þó hreint ekki vel.

„Um leið og ég stíg um borð þá fælast fiskarnir upp á land,“ segir Unnar Gísli og heldur áfram. „Það bara gerðist ekkert. Um leið og báturinn komst úr höfn, þá kviknaði í um borð. Hafsteinn kokkur var ekkert voðalega hrifinn af mér því ég mætti ekki í þrjú kaffið, ég svaf bara. Hann var með djúpa rödd. Ég gleymi þessu aldrei. Hann opnar hurðina og það er kviknað í. Hann var með svo djúpa rödd að ég heyrði bara hæææi,“ segir Unnar Gísli og hermir eftir óskýrum orðum kokksins.

„En hann var að segja „Það er kviknað í“ og ég segi „Já, ég er að koma“, svona hálf sofandi og er að ljúga. Síðan vakna ég bara við það að það er allt í reyk. Skipstjórinn var alveg brjálaður, tekur svona í bringuna á mér og bölvar og gargar. Mikil læti í honum. Og ég var bara í loftinu og flýg á gólfið. Ég bara sé ekki neitt, það er bara reykur út um allt. Það var vélarrúmið sem var í björtu báli. Maður gleymir aldrei svona. Greindarvísitalan fer í fyrsta lagi bara niður í hund. Það var ekkert plan, ég var ekkert búinn að plana hvert ég ætti að fara. Og hann svona horfir á mig og ég horfi á sokkinn minn.“

Unnar Gísli segist hafa verið með eina langa tánögl, eins og margir unglingar og þegar hann hafi drifið sig í sokkinn hafi hann náð að rífa góðan bita af þumalfingrinum með nöglinni. „Og ég fer í eitthvað sjokk. Og karlinn bara horfir á mig og gargar og gólar og bindur sokkinn utan um puttann á mér og hendir mér út. Og ég horfi bara á puttann á meðan hann lóðsar mér út.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.

- Auglýsing -

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -