Fyrstu kosningatölur kvöldsins hafa verið birtar en þær koma úr Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi.
Þegar 2000 atkvæði hafa verið talin er Samfylkingin stærsti flokkurinn í Norðausturkjördæmi, með 22,8 prósent atkvæða. Næst stærsti flokkurinn í kjördæminu er Sjálfstæðisflokkurinn með 15,9 prósent atkvæða. Flokkur fólksins kemur rétt á eftir Sjálfstæðisflokknum með 14,5 prósent. Lítill munur er á Miðflokknum og Framsókn í kjördæminu samkvæmt fyrstu tölum en Miðflokkurinn er með 13,8 prósent og Framsókn með 13 prósent. Viðreisn mælist með 8,4 prósent, Vinstri grænir mælast með 4,3 prósent, Sósíalistaflokkurinn er með aðeins þrjú prósent, Píratar 1,7 prósent og Lýðræðisflokkurinn rekur lestina með 0,7 prósent.
Í Suðurkjördæminu hafa verið talin 9.442 atkvæði en þar mælist Sjálfstæðisflokkurinn stærstu með 22,2 prósent fylgi. Næst kemur Flokkur fólksins með 19,5 prósent. Samfylkingin kemur fast á hæla Flokk fólksins með 18,9 prósent. Miðflokkurinn mælist með 11,6 prósent, Framsókn með 11,2 prósent og Viðreisn með 10,5 prósent. Sósíalistar mælast með tvö prósent fylgi, Lýðveldisflokkurinn með 1,1 prósent, Píratar með eitt prósent og Vinstri grænir koma síðastir með 0,9 prósent atkvæða.