Eftir mikla leit að erlendum ferðmönnum sem stóð frá mánudagskvöldi fram á þriðjudag við Kerlingarfjöll leikur grunur á að um falsboðun hafi verið að ræða en ennþá er verið að rannsaka málið. Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að slíkt sé brot á hegningarlögum.
„Ef þú gabbar neyðarlið, lögreglu eða björgunarsveitir eða slíkt þá ertu að brjóta hegningarlög, 120. grein hegningarlaga. Þar liggja við sektir eða fangelsisrefsing allt að þremur mánuðum, þannig þetta er alvarlegt mál. Hver sú sem refsingin er þá er þetta mjög alvarlegt, ef rétt reynist, að gabba björgunarlið í svona miklar aðgerðir, sagði Sveinn við mbl.is um málið.
Man aðeins eftir einu öðru tilviki
Sveinn segir einnig að slík göbb séu sjaldgæf en hann man aðeins eftir einu svipuðu tilviki og það hafi verið rúmum 20 árum síðan en þá hafi verið farið í leit að fólk á hálendinu. Þá telur að hann að líklegt sé að þetta sé falsboð.
„Miðað við það að það var leitað þarna í tæpan sólarhring og búið að loka öllum þeim þráðum sem við höfðum í höndum og búið að vinna úr. Þetta er bara svo sem rannsakað eins og annað sakamál, því þá er þetta orðið sakamál ef þarna er gabb í gangi. Við rannsökum bara eftir því í samræmi við það og vinnum það eins og önnur sakamál,“ sagði Sveinn að lokum.