Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Gabríel Benjamin telur félagsfund Eflingar geta breytt stöðunni: „Allir vita að þetta voru mistök“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég fagna því að þarna fái félagsmenn í raun og veru að láta í sér heyra, segja hvað þeim finnst um þennan gjörning,“ segir Gabríel Benjamin, kjaramálafulltrúi hjá Eflingu, um fyrirhugaðan félagsfund stéttarfélagsins. Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 27. apríl klukkan 18, í Valsheimilinu.

Gabríel Benjamin er trúnaðarmaður þess starfsfólks skrifstofu Eflingar sem er skráð í stéttarfélagið VR og tekur það skýrt fram að hann komi þess vegna ekki nálægt skipulagningu félagsfundarins. Honum þyki þetta hins vegar mikilvægt tækifæri fyrir félagsmenn Eflingar til að segja hug sinn í tengslum við þá elda sem logað hafa innan félagsins og hópuppsagnirnar sem ný stjórn undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur greip nýverið til. Hann segist telja allar líkur á að þær hópuppsagnir muni hafa áhrif langt út fyrir raðir Eflingar.

„Áhrif sem vara mun lengur heldur en stjórnartíð núverandi stjórnar. Hvort sem hún er í sex mánuði til viðbótar eða tíu ár. Þetta er áfall fyrir félagsmenn allra stéttarfélaga og verkalýðsfélaga á landinu.

Miðað við þá þjónustu og skerðingu sem félagsmenn verða fyrir núna í þessu ástandi, þar sem skrifstofan er svo gott sem óstarfhæf, þá sé ég ekki að þessi auglýsti ávinningur nái að dekka það tap sem mun skapast á þessum mánuðum.“

„Þetta er áfall fyrir félagsmenn allra stéttarfélaga og verkalýðsfélaga á landinu“

 

Skert þjónusta sem stjórnin ber ábyrgð á

Í dag er Gabríel sjálfur staddur á skrifstofunni og segir ekki margt starfsfólk í vinnu. „Það eru mjög fáir eftir hér. Heilu sviðin liggja niðri.“

- Auglýsing -

Gabríel segir að reynt sé að bjóða upp á bestu þjónustu sem hægt er undir þessum kringumstæðum. „Ég er kjaramálafulltrúi og sé meðal annars um ráðgjöf við félagsmenn og að senda út launakröfur. Fyrir þetta var ég með 14 launakröfur sem ég átti eftir að setja mig inn í. Þetta er 11 manna svið, þannig að það eru einhversstaðar á milli 80 til 150 launakröfur sem sitja og bíða eftir því að fólk hafi tíma til að sinna þeim. Við erum að tala um tugi ef ekki hundruði milljóna í launakröfum sem við náum líklegast ekki að fara í.

„Heilu sviðin liggja niðri“

Ég geri ráð fyrir því eins og ástandið er núna að vera bara að taka á móti fólki, svara símanum og reyna að halda í við tölvupóstinn. Ég sé ekki fyrir mér að í núverandi ástandi getum við haft tíma til þess að sinna launakröfum. Þær launakröfur sem ekki er búið að ráðast í geta þurft að bíða í marga mánuði, jafnvel hálft ár, sem er ólíðandi fyrir félagsmenn Eflingar. Kröfurnar geta líka margar hverjar fallið niður eða fyrnst og það eru vinnubrögð sem stjórn Eflingar ber ábyrgð á.“

 

- Auglýsing -

Sólveig Anna hafi ekki innsýn í ástandið

Hann segir Sólveigu Önnu ekki enn hafa mætt á skrifstofuna og því sé undarlegt að hún tali um að endurskipulagningin fylgi áætlun og að allt gangi rétt fyrir sig. „Hún hefur ekki tekið á móti félagsmönnum. Hún hefur enga raunverulega innsýn í það hver staðan er.“

Hann segir hana ekki hafa haft samband við starfsfólk um þessar breytingar og að engin yfirsýn sé í rauninni til staðar. Hún sjái ekki með eigin augum hvað sé að gerast. „Enn og aftur leggur hún meiri áherslu á að virðast hafa allt undir stjórn. Að hafa þá ásýnd að það sé verið að vinna þetta faglega frekar en í raun og veru að mæta og sjá til þess að þetta sé unnið faglega. Að félagsmenn verði ekki fyrir skerðingu. Það eru þeir sem eru að súpa seyðið af þessari ákvörðun.“

 

Fundurinn gæti haft áhrif

„Ég get sagt það fyrir mig sjálfan að ég sá enga uppreisn gegn Sólveigu Önnu,“ segir Gabríel. „Það voru yfir 40 manns sem voru ennþá eftir á skrifstofunni, sem voru ekki búnir að segja upp. Þeir voru reiðubúnir til þess að vinna fyrir félagsmennina. Hér er eitthvað óöryggi í stjórninni, sem telur sig ekki geta treyst öllum eða telur líklegt að einhverjir muni bregða fæti fyrir þau. Þá er ráðist í einhverjar risastórar aðgerðir.“

„Ég sá enga uppreisn gegn Sólveigu Önnu“

Sá félagsfundur sem fyrirhugaður er á miðvikudaginn gæti haft áhrif á stöðuna. „Þær ákvarðanir sem eru teknar á félagsfundi verður stjórnin að virða. Ef félagsfundur kemst að þeirri niðurstöðu að það eigi að draga hópuppsagnir til baka, þá ber stjórninni samkvæmt lögum að fylgja þeim fyrirmælum. Ef það er lagt fram vantraust, þá situr stjórnin undir vantrausti. Öll fundarsköp gera ráð fyrir því að stjórn ætti nú bara að segja af sér ef það gerist.“

Gabríel segir alltaf ómögulegt að segja til um hvað gerist þegar fundir sem þessir séu kallaðir fram. „Ég veit ekkert hvað mun gerast. Ég hef enga stjórn á því og stjórnin hefur það ekki heldur. Það getur alveg verið að stjórnin fái uppreist æru með þessu móti en það getur líka verið að hún verði undir í þessum umræðum. Mér finnst frábært að félagsmenn fái að láta í sér heyra og fái að hafa áhrif en ég er smá hræddur um það hver langvarandi áhrif verða fyrir verkalýðsfélög. Hvort við séum að stefna í það að hér verði bara eitthvað heilagt stríð stjórnarmeðlima gegn vindmyllum. Sú barátta byggir á samsæriskenningum. Hvort þetta snúist um einhver meint yfirráð skrifstofufólks. Ég vísa því bara til föðurhúsanna.“

Gabríel segist hafa áhyggjur af því í stóra samhenginu hvað gerist ef ástandið sem nú er við lýði haldi áfram. „Hvaða áhrif hefur það á alla verkalýðshreyfinguna og fyrir kjarasamninga? Það hefur enginn verkalýðsleiðtogi stigið fram og lagt traust eða sett fram stuðning við þessar aðgerðir. Það er enginn að fara að gera það. Allir vita að þetta voru mistök.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -