Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjalla- og bergfræði segir í samtali við mbl.is að líkleg staðsetning nýs goss sé í Illahraunsgígum en þeir eru staddir um það bil einum kílómetra frá orkuverinu í Svartsengi og Bláa lóninu. HS veitur og HS orka vinna að aðgerðaráætlun sem send verður yfirvöldum svo tryggja megi lágmarks kyndingu á svæðinu. „Maður býr sig undir það versta en vonar það besta,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar í samtali við mbl.is.
„Við erum komin í það viðbragð að rýma Svartsengi, Bláa lónið og Grindavík ef við höfum einhvern grun um að gos sé í aðsigi. Ekki bíða þar til gos er hafið,“ sagði Þorvaldur í samtali við Víkurfréttir.
„Ef gossprunga opnast á þessum slóðum þá eru bæði Svartsengi og Bláa lónið berskjölduð. Menn eru að hugsa um hvernig hægt yrði að vernda það svæði og leggja leiðigarða þannig að hægt verði að leiða hraunið frá þessum innviðum,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is og bendir á að kvikan myndi renna mjög fljótt yfir vegna efnasamsetningu hennar.
„Við vitum að þeir geta farið mjög hratt yfir í upphafi og þótt upphafsfasinn yrði ekki lengri en 15 mínútur eða klukkustund, þá geta slík hraun runnið með hraða sem nemur nokkrum tugum kílómetra á klukkustund,“ segir Þorvaldur.
Gríðarleg áhrif á íbúa
Virkjunin á Svartsengi sér íbúum í Reykjanesbæ fyrir heitu vatni og að hluta rafmagni. Komi til þess að virkjunin yrði fyrir eldgosi getur það haft gríðarleg áhrif á íbúa svæðisins sem reiðir sig á hitaveituna til að kynda húsin sín.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ segir í samtali við mbl.is: „Ef að það dettur út þá verður kalt í húsum á vetrarmánuðum og mun hafa mikil áhrif á okkur,“ segir Kjartan.
„Mér er sagt að það væri hægt að bjarga neysluvatni, köldu vatni, í einhverjum mæli, þó ekki í sama magni og það er í dag. Það þyrfti væntanlega að skerða það eitthvað,“ segir Kjartan og að hann voni það besta. HS veitur og HS orka vinna nú að aðgerðaráætlun sem send verður yfirvöldum svo tryggja megi lágmarks upphitun á svæðinu.
„En gos á svæðinu getur líka eyðilagt borholur HS í Svartsengi, en þær sjá að mestu um allt heitt vatn sem notað er á Suðurnesjum.
Möguleiki gufusprenginga og gjóskufalls í upphafi goss: „Þegar kvikubráðin nær upp í jarðsjóinn“