Stefán Pálsson segir sárt að sjá hversu lélegur staðall sé á sögugöngum í Reykjavík. Illugi Jökulsson tekur undir.
Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson skrifar um sögugöngur á Facebook en færsla hans hefur vakið athygli. Segist hann í upphafi vera „lúxusgrís“ þegar kemur að sögugöngum en hann á það til að taka að sér slíkar göngur og þá aðallega fyrir íslenska hópa.
„Ég er lúxusgrís þegar kemur að sögugöngum. 90% af þeim göngum sem ég tek eru með íslenskum hópum og restinni sinni ég mest af meðvirkni eða greiðasemi. Það er einfaldlega hægt að segja heimafólkinu allt aðrar og flóknari sögur en túristunum. Ég geri mér grein fyrir að þessi munaðarstaða hangir saman við að ég sé með góða fyrirvinnu og fái mínar eigin tekjur að mestu annars staðar frá en úr götuleiðsögumennskunni.“
Stefán talar síðan um léleg gæði í mörgum sögugöngum erlendra hópa í Reykjavík en hann fullyrðir að „útlenskir krakkar“ fái handrit í hendurnar og endursegi eftir minni.
Fjöldi athugasemda voru skrifaðar undir færslunni en Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður skrifaði eina slíka og kemur með dæmisögu:
„Ég gekk um daginn eftir Þingholtsstræti og var að ganga framhjá húsi Helga Helgasonar tónskálds þegar hópur kom askvaðandi með amerískan (held ég) fararstjóra. Hann stoppaði, benti og sagði: „This is the house of Helgi Helgason, he was a carpenter and a famous poet and he wrote the words to the Icelandic national anthem, in fact he wrote it in this house.“ Til að bíta hausinn af skömminni benti hann á vitlaust hús.“