Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir hlær að nýjasta útspili kosningateymis Katrínar Jakobsdóttur en tveir þriðju af „þríeykinu“ svokallaða hafa nú birt myndbönd til stuðnings fyrrverandi forsætisráðherrans, auk Kára Stefánssonar.
Steinunn Ólína, sem er í forsetaframboði ásamt Katrínu Jakobsdóttur er ein af nokkrum sem gagnrýnt hafa stuðningsmyndbönd hins nýja þríeykis, Víðis Reynissonar, Þórólfs Guðnasonar og Kára Stefánssonar.
„Þetta er það fyndnasta og örvæntingarfyllsta sem fram hefur komið. Þrír karlar úr Efri- deild kallaðir á dekk. „Veljið rétt annars fer illa!” „Treystið okkur til að vita betur!”,“ skrifar Steinunn Ólína á Facebook og bætir broskalli við. Og heldur svo áfram:
„Það er ekkert að óttast, trúið mér. Við erum fullfær um að hugsa og taka sjálfstæðar ákvarðanir sjálf.“
Að lokum minnir Steinunn á lag Þursaflokksins, Pínulítill karl, „sem hefði nú bætt falska hljóðmynd þessarra myndbanda til muna.“
Stefán Erlendsson stjórnmálafræðingur gagnrýnir einnig stuðningsmyndböndin og segist hreinlega ekki geta orða bundist, í færslu á Facebook. „Hlýðið Víði og kjósið Katrínu!
Víðir þarf annað tveggja að stíga niður sem sviðsstjóri Almannavarna sem fólki ber að hlýða á neyðartímum eða bakka með stuðningsyfirlýsinguna.“
Að lokum segir hann stöðuna sem komin sé upp hér á landi, minni á Norður-Kóreu.