Atli Þór Fanndal segir Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn hafa „ítrekað sýnt sitt rétta andlit“ og að framganga þeirra í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, til skammar.
Kjaradeila kennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga er í algjörum hnút eftir að SÍS hafnaði óvænt tillögu ríkissáttasemjara á dögunum en sitt sýnist hverjum um þá ákvörðun. Atli Þór Fanndal, fyrrverandi formaður Íslandsdeildar Transparency International, er síður en svo sáttur við framgöngu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í SÍS og segir fulltrúa þeirra hafa „misnotað“ atkvæði sitt og hafnað „mikilvægum samningum og stöðugleika á vinnumarkaði“, í þeim tilgangi að búa til „krísu“ og segir það „viðbjóðslegt“. Hér má lesa orð Atla Þórs sem hann birti á Facebook í gær:
„Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafa ítrekað sýnt sitt rétta andlit. Þetta er fólk sem virðir engin mörk. Það kveikir frekar í húsinu en að leyfa öðrum að fara með lyklavöldin. Framganga þeirra í Sambandi íslenskra sveitarfélaga sýnir svart á hvítu að enginn skaði er of mikill. Það að misnota atkvæði sitt og hafna mikilvægum samningum og stöðugleika á vinnumarkaði til þess eins að ætla að skapa krísu og hlaða pólitískar byssur er viðbjóðslegt. Svona fólk þarf meðferð en ekki völd.“