Hrönn G. Guðmundsdóttir, starfsmaður hjá Rannsóknarstöðinni Rif, gagnrýnir harðlega að íslenska karlalandsliðið í handbolta, sem nú keppir á EM í Þýskalandi, skuli merkt fyrirtæki sem styðji árásir Ísraela á Gaza.
Hrönn G. Guðmundsdóttir skrifaði færslu í gær þar sem hún gagnrýnir Handknattleikssamband Íslands, fyrir að merkja treyjur landsliðsins með merki Rapyd, sem sér um færsluhirðingu. Fyrirtækið er ísraelskt en eigandinn styður árásir Ísraelshers á Gaza, sem kostað hafa yfir 24 þúsund manns lífið, þar af að minnsta kosti 9.600 börn. Bendir Hrönn á að tilkynnt hafi verið um samstarf HSÍ og Rapyd 2. nóvember síðastliðinn, þegar árásirnar höfðu staðið yfir í um fjórar vikur. „Rapyd er með starfsemi á landsvæði sem tilheyrir Palestínu en er hernumið af Ísrael og eigandi fyrirtækisins er síonisti og styður hernám Ísraels! Er þetta fyrirtæki sem íslenskt íþróttafólk vill auglýsa? Hefur HSÍ virkilega geð í sér til að þiggja peninga frá fyrirtæki sem styður aðskilnaðarstefnu og kúgun palestínsku þjóðarinnar? Finnst HSÍ verjandi að skrifa undir samning um að þiggja blóðpeninga Ísraels á meðan verið er að murka lífið úr saklausum börnum?“
Færsluna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:
„Landslið Íslands í handbolta karla tekur nú þátt í EM i Þýskalandi. Fremst á treyju liðsins stendur Rapyd með stórum stöfum. Fyrir þau sem ekki vita, þá er Rapyd ísraelskt fyrirtæki sem býður upp á færsluhirðingu. Skv vefsíðu Rapyd á Íslandi var tilkynnt um samstarf Rapyd og HSÍ – Handknattleikssamband Íslands 2. nóvember 2023, þegar árásir Ísraela á Gaza höfðu staðið yfir í um fjórar vikur. Rapyd er með starfsemi á landsvæði sem tilheyrir Palestínu en er hernumið af Ísrael og eigandi fyrirtækisins er síonisti og styður hernám Ísraels!