Veðurstofa Íslands bendir á að gosmökkurinn berist í augnablikinu í vestur og norðvestur átt: „Gasmengunar gæti orðið vart í Vestmannaeyjum í dag, en ekki annars staðar í byggð. Samkvæmt veðurspá gæti gasmengunar orðið vart á höfuðborgarsvæðinu seint í nótt eða í fyrramálið.“
Fram kemur að dregið hafi úr krafti eldgossins. Hraunflæðið fjórðungur af því sem það var í upphafi og einungis þriðjungur af sprungunni virkur. Áætluð heildarstærð sprungunnar var fjórir kílómetrar. Kvikustrókarnir hafa lækkað og eru hæstir í um það bil 30 metrum. Matið er fengið af könnunarflugi sem fór yfir svæðið.