Í nógu var að snúast hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Aðili gekk berserksgang á bráðamóttöku Landspítalans og olli töluverðum usla meðal starfsfólks og sjúklinga. Viðkomandi flúði af vettvangi áður en lögreglan mætti á staðinn og er hans enn leitað.
Tilkynning barst vegna hópslagsmála í Breiðholti en lögreglan tjáði sig ekki meira um málið og því lítið vitað að svo stöddu.
Í miðbænum var töluvert um ölvun og þurfti aðstoð lögreglu vegna slagsmála og einhverra gleðipinna sem höfðu fengið sér allt of marga.
Innbrotstilkynningar bárust frá Hafnarfirði, Fossvogi og frá bílasölu í Árbænum en þeir fingralöngu voru snarir í snúningum og horfnir af vettvangi áður en lögreglan bar að garði.