Páll Villhjálmsson, kennari við Fjölbrautarskólann í Garðabæ, rífur hinn nýja miðil Kjarnans og Stundarinnar, Heimildina í sig í nýjustu bloggfærslu sinni.
Framhaldsskólakennarinn umdeildi, Páll Vilhjálmsson, er iðinn við að halda uppi vörnum fyrir Þorstein Má Baldvinsson og Samherja á bloggsíðu sinni. Virðist hann hafa hinu mestu óbeit á hinum sálugu fjölmiðlum Stundinni og Kjarnanum sem hvað harðast hafa skrifað fréttir um meinta glæpi Samherja í Namibíu. Þá hefur hann uppnefnt starfsfólk Ríkisútvarpsins og lýst þeim sem glæpamönnum. Vinnustað þeirra uppnefnir hann sem Glæpaleiti.
Í nýju bloggfærslunni gerir Páll meinfýsið grín að nýja miðlinum Heimildin sem varð til við samruna Kjarnans og Stundarinnar. Eftirtektarvert er að hann fullyrðir að Kjarninn og Stundin hafi verið á leið í gjaldþrot þegar ársreikningar fyrirtækjanna sýna allt annað. Lesa má færsluna hér fyrir neðan:
„Skipstjórinn og stolin heimild Stundarinnar og Kjarnans
Stundin og Kjarninn voru á kennitölum á leið í gjaldþrot. Páll skipstjóri Steingrímsson, sem varð fyrir byrlun og gagnastuldi, er með sterkt mál gegn miðlunum tveim, sem birtu stolin einkagögn hans. Nýja útgáfan fær nafnið Heimildin. Við hæfi þar sem stolin heimild varð Stundinni og Kjarnanum að falli.
Undanþágu Samkeppniseftirlitsins þurfti til að sameinast. Einnig við hæfi þar sem miðlarnir tveir hafa um langa hríð verið á undanþágu frá almennu siðferði.
Þrír sakborningar í lögreglurannsókn vegna byrlunar, gagnaþjófnaðar og brota á friðhelgi einkalífs eru á ritstjórn nýja miðilsins. Ef Helga Seljan er bætt við, en hann verður líklega vitni í væntanlegu dómsmáli, er þriðjungur ritstjórnarinnar tengd lögreglurannsókn.
Ritstjórn hinna grunuðu stefnir að ,,óháðri, vandaðri, gagnrýninni og uppbyggilegri aðhaldsblaðamennsku.“
Fyrirséðir efnisþættir ritstjórnar hinna grunuðu
- Hvernig skal byrla og stela og fá blaðamannaverðlaun fyrir vikið
- Bróðir minn sakborningurinn, eftir Ingibjörgu Dögg ritstjóra
- Flótti frá réttvísinni, hagnýt ráð byggð á reynslu
- Sértu jaðarmiðill, gerðu bandalag við RÚV
- Samþætting vinnslu á glæpum milli ákæruvaldsins og fjölmiðla, Ingi Freyr skrifar
- Blaðamenn og almenn hegningarlög, fréttaskýring
- Hvernig skal nýta sér andleg veikindi heimildarmanna – eftir rannsóknaritstjóra
- 3 aðferðir til að þagga niður í gagnrýni, raðfrétt Þórðar Snæs
- Starfsöryggi sakborninga á RÚV, aðsend grein eftir Þóru Arnórs
Blaðamennirnir leita ekki langt yfir skammt að efni. Heimildir fyrir ofangreindum efnisþáttum eru allar inni á ritstjórninni. Nafn og aðdragandi nýja miðilsins mynda ritstjórnarstefnuna: kennitöluflakk með undanþágu frá heimildum.“