Klámfengið efni var tekið upp í sjúkrabíl í húsnæði slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins við Skógahlíð í Reykjavík. Þetta staðfestir Birgir Finnsson aðstoðarslökkviliðsstjóri í samtali við mbl.is. Eftir að starfsmenn slökkviliðsins hafa horft á klámmyndbandið segir hann að þeir hafi áttað sig á því hvar þetta var tekið upp. DV greindi fyrst frá málinu.
„Núna þegar þetta er komið í fjölmiðla höfum við verið að fá fleiri ábendingar sem við munum fylgja eftir. Þegar fleiri fara að horfa og skoða þá dettur mönnum í hug pláss. Jú, húsnæðið er auðvitað bara húsnæði slökkviliðsins. Það er bara eitthvað í gangi sem við erum ekki sátt við og erum bara að fylgja eftir.“
Fyrstu viðbrögð slökkviliðs var að vísa því á bug að sjúkrabifreið frá því hafi verið notuð við klámið. Engar öryggismyndavélar eru innanhúss í Skógarhlíðinni og segir Birgir að ekki hafi verið talin þörf á því. Hann segir málið litið alvarlegum augum og slökkviliðið hafi ekki áhuga á að því að dragast inn í mál af þessu tagi.
Klámmyndbandið er tekið upp í sjúkrabíl slökkviliðsins og þar má sjá konu í hlutverki sjúklings í myndbandinu en maðurinn í hlutverki sjúkraflutningamanns. DV ræddi við aðilann sem sendi myndbandið inn til umfjöllunar og var viðkomandi greinilega misboðið:
„Get ég átt von á því að ef ég þarf sjúkrabíl að nýbúið sé að stunda kynlíf í honum?“